Fjölskyldan túrhestast

Jæja þá heyrist loks aftur frá okkur, ekki beint búin að standa mig vel í blogginu það sem af er ári :S

En alla vega við erum búin að hafa það fínt að undanförnu.  Chinese New Year er að baki með tilheyrandi fríi og skemmtilegheitum.  Krakkarnir fengu 10 daga frí í tengslum við það, þ.e. helgi, heila viku og svo mánudaginn þar á eftir sem var að mig minnir einhver National Territory day, þannig að sú skólavika taldi fjóra daga.  Núna á mánudaginn síðasta var svo aftur frí vegna Thaipusam (Hindúa hátíð) og því er annarri fjögurra daga vikunni að ljúka núna á morgun.  

Við ætluðum að vera voða dugleg að gera eitthvað sniðugt í fríinu í kringum Chinese New Year, Óli var settur upp í frí og á standby (sem þýðir venjulega ekkert að gera) en aldrei þessu vant fékk hann fullt af aukaflugum og m.a. skemmtilegan aukatúr til Ástralíu og Fiji.  Þetta var svaka túr og langt flug sem hann var þvílíkt ánægður með að fá.  Þannig að það varð ekkert úr einhverju ferðalagi hjá okkur.  En við náðum nú samt að nota mánudaginn vel og túrhestuðumst allan þann dag. 

Við byrjuðum á því að fara í Batu Caves ( http://www.malaysiasite.nl/batucaveseng.htm ) sem er hérna rétt fyrir utan borgina.  Þetta eru dropasteins hellar sem eru heilagir í augum hindúa og er mikið af goðum/styttum að guðum þeirra að finna þarna sem og risastóra "gull"styttu framan við hellana.  Maður þarf að labba 272 þrep upp í hellana og á leiðinni hittir maður fullt af litlum öpum sem krökkunum fannst voða gaman að fá að gefa banana.  Þar sem Thaipusam var framundan var mun meira um að vera þarna en venjulega og við sáum fullt af fólki labba upp þrepin í gulum klæðum og bera birgðar.  Sumir voru búnir að raka allt hárið af og bera á sig e-s konar gult duft, en þetta er víst eitthvað sem hindúar þurfa að gera helst amk einu sinni á ævinni og geta fórnað því og fengið eitthvað í staðin.  Það var alla vega mjög gaman að sjá þetta allt og vel þess virði að fara þarna upp eftir á þessum tíma.

Þvi næst var haldið af stað í fílagarðinn sem var svona aðaltilhlökkunarefnið hjá krökkunum.  Við vorum komin frekar tímanlega á staðin og ákváðum því að kíkja á lítinn dýragarð sem er þarna eiginlega við hliðina á og heitir Deerpark.  Hann var ósköp lítill og heimilislegur, en mjög skemmtilegur því maður var í mikilli nánd við öll dýrin.  Við fengum m.a. að gefa dádýrum að borða (og sum reyndu reyndar að borða líka bolin hans Óla, en það er annað mál...), halda á broddgelti, fóðra litla unga, halda á einhvers konar prímata, halda á slöngu, fóðra strút og klappa og gefa birni hunang að borða úr hendinni.  Krakkarnir voru alla vega þvílíkt glaðir og þá auðvitað líka við foreldrarnir.

Svo fórum við loksins í fílagarðinn.  Þarna miðast nefnilega allt við að vera á svæðinu þegar fílunum er gefið að borða og leyft að fara út.  Þetta er nefnilega svona hálfgert munaðarleysingjahæli fyrir fíla og þessar "sýningar" eru algert aukaatriði.  Þeir bjarga sem sagt fílum sem hafa orðið viðskila við hópinn eða eru slasaðir, hjúkra þeim og reyna að koma þeim aftur út í náttúruna.  En stundum eru þeir það illa slasaðir, eða verða það háðir mannfólkinu að þeir funkera ekki úti í náttúrunni og þá fá þeir að vera þarna áfram.  Þeir skiptast á að koma fram, en fá annars að vera þarna frjálsir á lokuðu svæði.  Við fengum að gefa þeim að borða og Sigurður stóð sig manna best í því, þó svo allir hafi auðvitað prófað.  Það var annað hvort hægt að gefa þeim þannig að þeir taka á móti með rananum eða stinga beint upp í þá.  Sigurður og Óli prófuðum að gefa þeim beint en við skvísurnar létu okkur næga að rétta þeim í ranann.  Svo fengu allir að prófa að fara smá hring á fílsbaki og það var voða gaman.  En hápunkturinn var að fá að fara á fílsbak út í litla á sem var þarna þar sem þeir hentu okkur af baki.  Þar var svo hægt að leika sér ofan í með litlum fílum, klappa þeim og skoða betur.  Það voru allir voða ánægðir með þetta og við vorum því glöð fjögurra manna fjölskylda sem hélt heim á leið þarna seinni hluta dags.

Síðasta helgi var líka fín.  Við fórum í afmæli á laugardeginum og á sunnudeginum sáum við Lion dance í tilefni að lokum Chinese New Year.  Þetta fór fram hérna í Riana Green og það skemmtu sér allir konunglega.  Það voru auðvitað þvílík læti, bumbusláttur og skrautlegir búningar.  Þetta var eitthvað loftfimleikafólk sem var þarna inni í ljónunum, tveir í hverjum búning og svo hoppuðu þeir á milli stanga og sýndu þvílíkar listir, voða gaman allt saman.  Allir vildu koma við ljónin, því það á að veita manni mikla lukku á komandi ári og svo var slegist um mandarínurnar/appelsínurnar sem þau dreifðu í lokin því það á víst líka að færa manni gæfu á komandi ári.  Fórum svo út að borða með nokkrum héðan af svæðinu á Suður afrískan stað sem heitir Out of Africa.  Vorum með fullt af krökkum með okkur sem skemmtu sér vel á leiksvæðinu sem var þarna á staðnum.  Alger snilld, við fullorðna fólkið gátum bara borðað alveg í friði og þau djöfluðust allt kvöld og voru sjálf þvílíkt ánægð með þetta.

Á mánudeginum síðasta var svo sem sagt frí í skólanum og við nýttum þann dag vel.  Við byrjuðum á því að fara í go-kart.  Sigurður fékk að keyra sjálfur bíl og var þvílíkt kátur með það og fékk að fara tvisvar.  Óli fór líka tvisvar, einu sinni með Sigurði á brautinni og svo fóru allir "kallarnir" einu sinni saman og þá var sko gefið í ;)  Sonja Margrét var ekki nógu stór til að fá að keyra ein og fékk því að fara í tveggja mann bíl með henni Tinnu og skemmti sér vel.  Eftir velheppnaða ferð í go-kartið var ákveðið að kíkja í aðaldýragarðinn hér á svæðinu með þeim Sigurjóni, Ernu og Írisi Ósk.  Þetta er frekar stór garður og við sáum fíla, gíraffa, ljón, apa, alls kyns fugla, slöngur, krókódíla, skjaldbökur, uxa, dádýr, flóðhesta, nashyrninga og margt fleira.  Við eigum samt enn eftir að skoða hluta af garðinum, en þar sem allir voru orðnir frekar þreyttir og lúnir þarna í lokin og orðið mjög heitt var ákveðið að láta þetta nægja í bili og koma frekar aftur.  Kíktum á McDonanlds og brunuðum svo til Júlla (Rebekka var á spítalanum...) og sóttum vatn til hans og kjöftuðum aðeins og svo bara heim, enda skóli daginn eftir.

Þessa vikuna er Sigurður svo búinn að vera í prófum.  Það eru sem sagt 3 annir á ári hjá þeim báðum og í lok hverrar annar er próf hjá þeim báðum.  En í primary (sem Sigurður er í) og í secondary eru líka það sem kallað er monthly test á miðri önninni.  Þau eru ekki alveg eins mörg og lokaprófin, en hann er engu að síður í 7 prófum (þar af 3 enskuprófum, grammar, composition og spelling)  Hann hefur þegar lokið við 5 próf, en síðustu 2 prófin eru á morgun, science og history (uppáhaldið hans).  

Ég er ekki búin vera dugleg í ræktinni (djööö...) en er búin að vera þeim mun duglegri í tennis.  Höfum verið að fara stundum á hverjum degi í allt að 3 tíma.  Við erum líka orðin ansi mörg í þessu, þannig að það er fínn félagsskapur í þessu.  Í gær fór ég svo líka og prófaði skvass og það var alveg skemmtilegt, þannig að ég á sko eftir fara aftur og prófa það.  Það er líka svo þægilegt að skella sér í tennis eða skvass, vellirnir hérna á svæðinu og fullt af liði sem er tilbúið að skella sér með manni.

Jæja ætla að láta þetta duga í bili.  Ætla að fara og reyna skella mér í að henda inn einhverjum myndum núna á næstu dögum.  Þetta er bara orðið svo andsk... mikið sem ég þarf að fara í gegnum að ég er eitthvað að mikla þetta fyrir mér.

Bless í bili,

Rósa og co 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl öll, loksis heyrum við frá ykkur, Ólafur minn viltu hafa sambaand við pabba þinn NÚNA hann er búinn að reyna mikið að na í þig. Gott að heyra að þið hafið það gott. Kveðja mamma

sonja Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 18:49

2 identicon

Gaman að fá fréttir af ykkur, greinilega nóg að gera hjá ykkur-svakalega spennandi. Hér er blessuð blíðan... og allt gengur o.k;)

Knús og kossar til ykkar allra...

Berglind, Hrafn, Óskar og Lúkas

Berglind (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 22:25

3 identicon

Bara kvitta fyrir innlitið :) Sá á Facebook að þú værir búin að blogga aðeins. knús á liðið , Svanhildur & co

Svanhildur (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 08:37

4 Smámynd: Steinunn Camilla

Yndislegt að tala við þig um helgina :) Heyrir svo aftur í þér sem allra fyrst. Snilldar túristastuð sem þið voruð í og myndirnar eru æði :)

Verð að kíkja út til ykkar, bara verð. Fer að reyna finna tíma og plana

knús á alla

Steinunn Camilla, 17.2.2009 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband