Margt að gerast

Þeir sem okkur þekkja vita að það eru ýmsar breytingar framundar hjá fjölskyldunni.

Það eru innan við þrjár vikur síðan að það var hringt í hann Óla og honum boðinn hinn langþráði FÍA samningur. Málið var bara að honum var boðinn hann gegn því að við tækjum vistaskipti í 2 ár í Kuala Lumpur. Við fengum ekki mikinn tíma til að ákveða okkur, en í ljósi þess hvað hefur gengið á hér heima hjá flugmönnum að undanförnu, þorðum við ekki öðru en að taka boðinu og þess vegna erum við nú á leiðinni út öll fjölskyldan til Malasíu.

Þetta hefur allt gengið ansi hratt fyrir sig og eins og staðan er núna erum við á leiðinni út í september, takk fyrir!  Síðustu daga hefur verið nóg að gera.  Það er búið að segja upp íbúðinni og seinna í dag kemur sá fyrsti til að skoða hana.  Það er búið að segja upp sjónvarps- og blaðaáskriftum, panta ýmsa pappíra sem við þurfum að hafa með okkur og í gær byrjuðum við krakkarnir í sprautum fyrir ferðina.  Krakkarnir fengu tvær sprautur hvort um sig, en ég fékk heilar fjórar.  Við förum svo aftur í sprautur eftir mánuð og svo að lokum viku eftir þá heimsókn og þá eigum við að vera tilbúin.

Svo  þarf að fara huga að því að pakka öllu niður, þ.e. því sem við ætlum að geyma.  Við ætlum að reyna losa okkur við eitthvað af stærri hlutunum, a.m.k. þeim sem við hefðum séð fyrir okkur að endurnýja þegar við förum loksins inn í nýja húsið (já það kemur vonandi einhvern tíman að því!) því það getur verið ótrúlega dýrt að geyma svona hluti.  Svo erum við að vona að ættingjar væru til í að geyma eitthvað fyrir okkur á meðan við erum úti, svona örfá hluti sem við viljum ekki setja í geymslu.  En það samt ótrúlega mikið sem þarfa að pakka og mér finnst svoooo leiðinlegt að pakka.

Svo er það málið með skólann úti.  Það er ekki enn komið á hreint hvert krakkarnir fara né hvenær þau byrja.  Skólaárið virðist nefnilega vera ansi breytilegt þarna úti.  Skólinn sem okkur var bent á af Íslendingum þarna úti virðist vera með skólaárið frá jan-maí og svo júní-nóvember og skólarnir þarna eru sko ekki ókeypis.  Við vitum ekki einu sinni hvort þau verði tekin inn í þennan skóla, né hvort þau taki við nemendum á miðri önn.  Þannig að það er spurning hvort þau byrji strax og þau koma út eða hvort þau byrji þegar ný önn byrjar (sem yrði ekki fyrr en í janúar) og þá þarf að leysa málin einhvern vegin þangað til og spurning hvort skólinn þeirra hérna heima væri til í að vera okkur innan handar og í raun leyfa krökkunum að vera í n.k. fjarnámi.  Þetta kemur allt vonandi í ljós á allra næstu dögum.  En hvernig sem fer þarf ég samt að vera í sambandi við skólann hér heima því við þurfum að passa vel upp á hana Sonju Margréti okkar sem er enn að læra að lesa og skrifa á íslenskunni.  Ég hef verið að hafa svolitlar áhyggjur af henni, hversu erfitt þetta verði fyrir hana.  Hún er enn að lesa hljóð fyrir hljóð og ekki komin jafnlangt í lestrinum og Sigurður var kominn þegar hann byrjaði í 6 ára bekk.  Er svolítið hrædd um að það flæki aðeins málin að þurfa að fara og læra öll hljóðin upp á nýtt og að lesa líka á ensku.  En einhvern vegin hlýtur þetta að ganga á endanum, það tekur kannski aðeins lengri tíma og örugglega slatta af þolinmæði, en það kemur án efa að lokum.  Hvernig sem fer þá held ég að þau eigi alltaf eftir að búa að því að læra enskuna vel, held það eigi eftir að hjálpa þeim fullt í framtíðinni.  Svo fá þau líka að læra annað tungumál að mér skylst í skólanum og þá get ég kannski farið og lært frönsk  (eða eitthvað annað tungumál) með þeim ;)

Það sem hvílir hins vegar einna helst á okkur þessa dagana er að við getum ekki tekið okkar yndislegu litlu Ísabellu með okkur út :(  Þessi litla, freka, óþolinmóða og yndislega tík verður að verða eftir og þar sem hún er orðin 14 ára gömul vitum við alls ekki hvort við sjáum hana aftur og það er svolítið skrítið og erfitt að hugsa til þess.  Hún er búin að vera hluti af okkar fjölskyldu svo lengi og erfitt að hugsa sér lífið án hennar.  Við vonum að við náum að finna einhverja leið til að hún geti verið hjá einhverjum úr fjölskyldunni, það væri óskastaðan, en það er auðvitað óljóst hvort það gangi upp.  Við höfum líka verið að ræða þetta svolítið við krakkana, hvernig við getum ekki tekið hana með og einnig það að hún sé orðin það gömul að kannski sjái þau hana ekki aftur :(  Við vonum auðvitað það besta, enda er Ísabella ótrúlegur hundur sem kemur endalaust á óvart og er ótrúlega spræk og sterk.

Hef þetta ekki lengra í bili en held áfram að skrifa um allt þaðan sem þarf að gera þegar maður heldur út í svona ævintýri.

Kv. Rósa og allir hinir verðandi ferðalangarnir 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband