15.9.2008 | 10:31
Formlega orðin íbúi í Riana Green
Jæja þá erum við flutt, komin með netið og allt!
Við stefndum að því að flytja inn á miðvikudeginum þegar Óli var búinn að vinna. Það var svo rúmlega þriggja tíma seinkun hjá honum, þannig að við fluttum ekki inn fyrr en á fimmtudeginum. Fórum samt eina ferð með drasl á miðvikudeginum ásamt því að fara í verslunarferð dauðans í Ikea. Það var reyndar svona frekar fyndin ferð. Mér leið eins og ég væri tvítug að byrja að búa (svona fyrir utan krakkagemlingana sem voru með í þetta skiptið). Okkur vantaði auðvitað allt, diska, glös, hnífapör, kodda og sængur, rúmföt, potta, pönnur o.s.frv. og því var auðvelt að ná að fylla tvær kerrur.
Á fimmtudeginum fórum við í fínan morgunmat á hótelinu og svo var öllu pakkað í lúxuskerruna okkar (Proton Waja-Malasísk eðalframleiðsla) og er óhætt að segja að þröngt hafi sáttir mátt sitja. En við komumst með allt dótið í einni ferð og það munaði alveg um það. Sjónavarpskallinn kom stuttu eftir að við vorum mætt á svæðið (auðvitað mjög nauðsynlegt að geta farið að horfa strax á imbann) Erum að borga um 2500 á mánuði fyrir einhverjar enskar stöðvar, aðallega fréttir, 3-4 bíórásir, einhverjar íþróttarásir (getum alla vega horft á enska boltann, meistaradeildina og F1) og 4 eða 5 barnarásir. Eina sem vantar tilfinnanlega er almennileg rás með góða bandaríska þætti (er með 1 eða 2 rásir en það virðist vera aðeins eftir á) Engu að síður erum við sátt og ekki skaðar að þetta er aðeins ódýrara en stöð2 og sýn!
Skelltum okkur svo í supermarkaðinn og versluðum slatta þar. Það vantar auðvitað allt, hreinlætisvörur, allt krydd o.s.frv. þannig að okkur tókst að eyða um 20.000 íslenskum krónum og fylla tvær kerrur. Okkur virðist ganga vel að eyða peningum þessa dagana...
Þegar við komum heim og ég ætlaði að fara ganga frá hlutunum kom í ljós að íbúðin var ekkert alltof vel þrifin (og er þá vægt til orða tekið). Áður en ég gat hugsað mér að setja eitthvað inn í ísskápinn eyddi ég tæpum 2 klst í að þrífa hann. En hann er líka ágætlega hreinn núna! Fengum líka heimsókna frá gaskallinum sem tengdi allt fyrir okkur og nú get ég eldað eins og vindurinn, hehe...
Óli var að fara að fljúga um nóttina og þurfti því að leggja sig en ég hélt áfram að koma okkur aðeins fyrir. Náði að ganga frá flestu þarna um kvöldið, en átti þó eftir að klára taka fötin upp úr töskunum og klára að ganga frá dótinu inni í eldhúsinu. Málið er að eldhúsið er HUGE og ógeðslega margir skápar og ég hreinlega vissi ekki hvar ég vildi setja hlutina og hvaða skápa ég vildi helst nota. Ákvað því að taka nóttina í það að melta þetta aðeins.
Ég setti samt í algeran forgang að taka niður alls konar "drasl" sem eigendurnir áttu og koma fyrir í efri skápum (nægt skápapláss hérna) Tók niður ótrúlegt magn af gerviblómaskreytingum (set inn myndir af þessu við tækifæri, skreytingarnar náðu næstum að fylla borðstofuborðið) Fyrir utan að mér finnast gerviblóm yfirleitt frekar ljót að þá voru þessi einstaklega gervileg, það var bara ekkert eðlilegt við þau. Það er hægt að fá svona gerviblóm út um allt hérna og þau eiga það flest öll sameiginlegt að vera einstaklega gervileg. Færði líka aðeins til húsgögn (ógeðslega ljótur hornskápur t.d. í stofunni fór þangað sem minna sást í hann), skipti um áklæði á sófanum (er dökkbrúnn og hvítur og svo er hægt að velja um rautt sem var á eða beige sem var inni í skáp, setti beige á) og tók niður geðveiku gardínurnar í svefnherberginu svo ég gæti sofið án þess að fá martröð (þetta voru vængir sitt hvoru megin og var hver vængur þrílitaskiptur, rauður, hvítur og gulur, geðveikt flott eða þannig) Tók niður hvítar gardínur sem voru á gangi þar sem engin þörf er á og er óhætt að segja að andrúmsloftið í svefnherberginu hafi skánað mikið við það að marglitu gardínurnar hyrfu upp í skáp. Einhverjar ljótar Ikea hillur flugu niður af veggjunum og þar lét ég reyndar staðar numið þennan daginn og fór að sofa með krökkunum, sem fengu að kúra hjá mér þessa fyrstu nótt, enda Óli að vinna.
Morguninn eftir kláraði ég svo að taka upp úr töskunum okkar Óla og ganga frá í eldhúsinu og eftir hádegi kláraði ég að taka upp úr töskum krakkana. Þannig að núna er þetta allt að koma. Er svo búin að vera nota síðustu daga og þrífa, ganga frá inni á baðherbergjunum, þvo allan þvottin sem er búinn að vera safnast upp og svona. Erum búin að ná að fara aðra ferð í Ikea og eyða aðeins meiru þar. Fórum þangað á laugardaginn og þangað förum við aldrei aftur um helgi. Held það hafi allir kínverjar í Kuala Lumpur verið þar samankomnir. Þetta var bara crazy... Fólk alls staðar og maður gat varla hugsað. Enda voru allir fegnir þegar við komumst út.
Í gær keyrði ég svo í fyrsta skipti hérna úti. Þurftum að skjótast í búðina sem er hér rétt hjá og það hentaði mér ágætlega að prófa þá að keyra. Þetta er stutt og mjög einföld leið, getum meira að segja að keyrt þangað án GPS (er reyndar örugglega eini staðurinn sem við treystum okkur til að keyra til án GPS en það er önnur saga...) Það gékk ágætlega en það á samt eftir að taka mig slatta tíma að venjast því að bíllinn sér svona "breiður" mér á vinstri hönd, enda minnti Óli mig nokkrum sinnum á að ég væri komin ansi nálægt vegarbrúninni
Það er sem sagt bara allt ágætt að frétta héðan. Mér er farið að líða mun betur. Sakna auðvitað allra heima þvílíkt, en mér líður samt einhvern vegin betur. Heyrði t.d. í mömmu og pabba í gær og það var ekki eins erfitt að tala við þau eins og fyrir viku síðan. Erum svona smám saman að venjast öllu hérna. Held reyndar að það hafi verið svo margt að gerast núna síðustu daga að ég hef varla haft tíma til að velta mér upp úr þessum hlutum og vorkenna sjálfri mér. Sé til hvernig þetta verður þegar krakkarnir byrja í skólanum (nei, þau eru ekki enn byrjuð, en byrja vonandi í vikunni), Óli er að vinna og ég hef ekkert annað að gera en að velta mér upp úr hlutunum.
Ætla að láta þetta duga í bili. Takk öll fyrir commentin ykkar, það er alveg ómetanlegt að lesa þau.
Lov u,
Rósa
Athugasemdir
hahaha veistu Rósa að ég gjörsamelga sprakk uppúr hérna við lestur þessarar færslu, svolítið annað en við lestur gömlu færslanna þegar ég bara grét :-) Sá þig alveg fyrir mér vera eins og stormsveipur um alla íbúð og taka niður það ljóta og gera heimilið að ÞÍNU/YKKAR!!!!
Gott að þér líður betur og allt gengur vel, þarf bara að fara að uppfæra skype hér hjá mér svo við getum farið að spjalla :-)
knús og kram
ELísabet
Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 15.9.2008 kl. 11:32
ég er búin að kíkja hérna alla vikuna, gaman að fá loksins fréttir :)
Ef ég þekki þig rétt þá verður íbúðin örugglega mjög heimilisleg þegar þú hefur lokið þér af, hlakka til að koma í heimsókn.
knús, Erla
Erla Hlín (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 11:59
vá hvað ég kannast við þetta muhaaahhaah lifi IKea
HLAKKA til að heyra í ykkur, vonandi á morgun. SÖKNUÐUR ;-)
grindjánarnir eheheehe (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 20:23
Það er nú ekki leiðinlegt að fá oft tækifæri til að byrja að búa!
Æði að þið séuð komin með netið og hægt sé að fylgjast með ykkur.
Rósa, þú verður að setja inn myndir af þessu þurrskreytingum og "flotta" innbúi !!! En, ég held að þú verðir ekki lengi að gera þetta að þínu. Heimili ykkar verður alveg súper kósý. Nú verð ég að fara að tengjast skype-inu svo að við getum spjallað smá. Risa knús til ykkar.
Sirrý og co.
Sirrý (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 10:50
Hæ hæ....gaman gaman að heyra svona góðar fréttir. Frábært að heyra að þér og ykkur líður betur. Þetta er allt að smella saman og verður örugglega Rósulegt heimili mjög fljótlega. Er hér heima með hor og hita enda einstaklega gott veður búið að vera hér á klakanum... og Hrafn er í Vatnsdalnum að syrgja Óla Hlakka mikið til að sjá myndir.
Knús og kossar á hele familien. Elska ykkur.
Kv. Berglind og strákagengið.
Berglind (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 23:22
Híhí... sé alveg fyrir mér hrúgu af ljótum gerviblómum --- þú verður nú ekki í vandræðum með að gera fallegt og kósí hjá ykkur. Alltaf gaman að lesa bloggið þitt.. maður sér ykkur næstum fyrir sér þarna í IKEA með öllum maurunum ;)
Gott að heyra að þér er farið að líða betur... þetta verður bara betra og betra hér eftir og tíminn á eftir að fljúga frá ykkur --- stoppaðu við sem oftast og njóttu stundarinnar! Knús og kossar, Bjarney - Logi - Bjarki
Bjarney (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 23:27
Já nú fer lífið að komast í sinn vanagang hjá þér elskan mín ! þú getur haldið þér aðeins lengur upptekinni við að koma ykkur fyrir og svo verður þú bara að byrja að prjóna :)
Knús Ásdís
Ásdís Rósa (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 13:28
hæ hæ,
það er svo langt síðan þú hefur skrifað, hvað er að frétta af ykkur?
Endilega settu inn færslu ef þú hefur tækifæri til,
xxxxErla
Erla Hlín (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 09:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.