3.11.2008 | 14:22
Halloween, tónleikar og fleira skemmtilegt
Það átti nú ekki að líða svona langur tími á milli færslna, en oh well...
Við höfum það voða gott hérna úti. Það er búið að vera svaka heitt síðustu daga (í kringum 35 gráður) og mikill raki, eiginlega full mikið af hinu góða. Í gær rigndi svo í fyrsta skipti í næstum viku og svo aftur í dag með tilheyrandi þrumum og eldingum. Það er sko alveg ótrúleg kraftur í þessu og lætin í samræmi við það. Hef bara aldrei kynnst öðru eins.
Fyrir viku (á mánudaginn) var Deepavali og þess vegna voru krakkarnir í fríi á mánudag og þriðjudag. Við gerðum svo sem lítið þessa helgi. Óli átti að vera að vinna, en vélin bilaði og var föst einhvers staðar. Við biðum því í rúman sólarhring eftir að fá að vita hvenær hann færi í loftið og gerðum þess vegna lítið á meðan. Að lokum var svo flugið bara fellt niður, Óla til mikillar gleði (eða þannig sko, ef hann fengi að ráða væri hann næstum alltaf í loftinu...) Hápunktur helgarinnar var svo örugglega bíóferðin á High school musical 3, það er sko búið að bíða eftir þeirri mynd á þessu heimili
Á miðvikudeginum eftir frí var venjulegur skóli hjá Sigurði en Sonja Margrét átti að mæta á æfingu fyrir árlega tónleika primary hluta skólans í Damansara Heights. Það var því ákveðið að Sigurður og Tinna færu með skólarútinni sem fer frá Damansara Height þennan daginn og þannig gæti ég séð leiðina sem ég ætti að fara seinna um morguninn. Þetta reyndist voða drama því skólabíllinn fór og snemma af stað og við sáum hann keyra í burtu. Náðum á endanum að fá rútuna til að stoppa eftir svaka flaut og læti og krakkarnir fengu að fara með þrátt fyrir að bílstjórinn væri ekkert voða kátur með okkur. Ég fór svo heim með Steinunni, sótti Sonju Margréti og keyrði hana svo á æfinguna. Eyddi svo næstu klst aðallega í keyrslu, fyrst heim, svo í búðina, svo að sækja Sonju Margréti og þaðan upp í Cheras að sækja Sigurð, Tinnu og Beru. Nóg að gera í keyrslu hérna úti. Er örugglega í alla vega 50% vinnu við það þessa dagana... En það er líka ekkert mál lengur að keyra hérna úti. Þetta eru svo sem algerir brjálæðingar í umferðinni og algerar frekjur, en þetta gengur allt einhvern vegin. Ég reyni að vera svolítil frekja líka og nú ef ég geri eitthvað voða aulalegt að þá skiptir það voða litlu máli, ég sé þetta fólk örugglega aldrei aftur...
Á föstudaginn var svo Halloween hérna úti. Krakkarnir mættu í búningum í skólann, Sigurður var Starwars gaur og Sonja Margrét Skellibjalla. Það var svo sem ekker sérstakt gert hjá Sonju Margréti, en hjá Sigurði voru krakkarnir með fullt af nammi og voru að bítta sín á milli og voða gaman bara. Eftir skóla fórum við svo með liðinu hérna á Riana Green, þ.e. Steinunni og Gumma, Anki og Lawrence, Anitu, Agniesku og Rob, Monicu og öllum krökkunum og einhverjum fleirum til Valencia þar sem Shirley og maðurinn hennar búa núna. Þar var svaka Halloween partý í gangi í Clubhouse-inu. Það voru leikir fyrir krakkana og alls kyns skemmtilegheit í gangi. Eftir matinn fóru krakkarnir svo um allt hverfið í Trick eða Treat, voða gaman. Það var líka búið að útbúa Scary House, sem var sko alveg svakalega hræðilegt! Alla vega voða gaman hjá krökkunum og þau komu heim með fulla poka af nammi eftir kvöldið.
Morguninn eftir þurftum við svo að vakna snemma því Sonja Margrét var að syngja á árlegum tónleikum í skólanum. Hún var búin að hlakka mikið til og ekki vorum við foreldrarnir minna spenntir. Hún stóð sig auðvitað frábærlega. Var fremst í hópnum sínum og söng og dansaði svaka vel. Við vorum því mjög stolt þegar við keyrðum heim á leið.
Eftir að hafa eytt restini af deginu í rólegheitum var okkur boðið í Atlanta grill við eina af sundlaugunum hérna í Riana Green. Óli Ket, sem er yfir flugvirkjunum hérna úti og er maðurinn hennar Melissu bauð til svaka veislu, bjór, rauðvín, pylsur, hamborgarar og ég veit ekki hvað. Krakkarnir hömuðust í lauginni og allir skemmtu sér vel, enda fín mæting. Þegar leið á kvöldið fór ég heim með krakkana, en Óli var eitthvað lengur með liðinu og skemmti sér vel.
Gærdagurinn var svo ósköp rólegur. Sváfum frameftir, eldum amerískar pönnukökur með jarðaberjum, slökuðum á, kláruðum stór verkefni sem Sigurður á að skila í skólanum (eitt svona "project" á hverri önn, núna í Math og Science) og fórum að lokum í Curve þar sem við fórum og keyptum loksins málningu á stofuna og enduðum úti að borða á Fridays. Ágætis endir á ágætis helgi. Eða svona þannig séð...við náttúrulega horfðum á síðasta formúlumótið og djö... var Massa nálægt þvi að taka þetta. Er bara engan vegin að fíla Hamilton. Þannig að ég fór ekki alveg fullsátt að sofa.
Þannig að við höfum það bara gott hérna úti. Nóg að gera og fullt af skemmtilegu fólki að kynnast. En það þýðir samt ekki að maður sakni ekki allra heima. Óskar frábæri frændi okkar átti t.d. 4 ára afmæli fyrir viku og okkur fannst auðvitað alveg glatað að komast ekki í afmælið til hans og fá að knúsa hann svolítið almennilega. Nú og svo eru Magnús og Þórhildur búin að vera með alla krakkana heima á Íslandi í síðustu viku. Þau komu til að láta skíra litla frænda sem ekkert okkar hefur fengið að sjá. Og það er auðvitað alveg súrt að eiga frænda sem maður hefur ekki fengið að knúsa og kynnast. Hvað þá að fá að leika við Jónatan og Gerði Maríu... En litli frændi fékk alla vega hið fallega nafn Daníel Hjaltalín í gær og óskum við honum, og allri fjölskyldunni, auðvitað innilega til hamingju með það. Vonandi fáum við svo bara að hitta hann og kynnast honum sem allra fyrst.
Jæja ætla að láta þetta duga í bili og fara að koma mér í bólið.
Kveðja frá Kuala...
Rósa
Athugasemdir
Hæ fallega fólk :)
Alltaf jafn skemmtilegt að fá góða færslu frá ykkur ævintýrafólkinu :) Trúi ekki hvað það er langt síðan ég knúsaði ykkur. Ísabella er voða hress en með smá sár á skottinu sem er allt að lagast, henni er allavega alveg sama því hún var að uppgötva nýtt nammi... ýkt stuð hjá henni að sleikja bein í staðinn fyrir að naga það, er sko með 2 í gangi, eitt til að naga og annað til að nota sem sleikjó, hún er alltaf jafn skondin, hehehe :)
Annars er lífið gott hérna í kuldanum. Sakna ykkar bara, allir sakna ykkar. Sendi ykkur góðar hugsanir, þið megið senda eitthvað af hitanum til okkar ;)
Farið að henda inn einhverjum góðum myndum. Hlakka til sjá ykkur sæta fólk
Knúúúúúús....
Steinunn frænka
Steinunn Camilla, 3.11.2008 kl. 21:43
Hæ hæ.
Alltaf gaman að lesa færslurnar þínar Rósa. Greinilega nóg um að vera og lítill tími til að láta sér leiðast. Vona að allt haldi áfram að ganga vel. Ágætis tími til að vera bara sem lengst í burtu frá þessu blessaða landi okkar ;)
kv. Valva
Valva (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:59
Ef ég væri ekki að fara í próf eftir mánuð væri ég á leiðinni til ykkar núna!
Frábært að heyra hvað allt gengur vel og krakkarnir duglegir í skólanum. En hvað með jólin? Eruð þið enn að spá í að koma heim þá?
Knús frá okkur öllum!
Sirrý
Sirrý (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 11:32
Takk fyrir yndislega sendingu... vá hvað Óskar er glaður. Tók margar myndir, m.a. þegar hann er að vinka til ykkar á þeim... ég reyni að senda sem fyrst. Hann var voðalega glaður að fá svona risastóran og flottan pakka frá Kuala Lumpur, fallegt kort, vel skreytt og flott skrifað;) Takk elskurnar!!!
Frábært að fá bréf frá þér Rósa og líka gaman að lesa færsluna. Hér er brjálað rok og rigning...arghhh. Hafið það gott í hitanum.
Elskum ykkur mest. Kossar og knús til ykkar allra
kveðja Berglind, Hrafn, Óskar og Lúkas.
Berglind (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.