4.9.2008 | 10:28
Nóg að gera svona í upphafi...
Jæja þá fara að vera komnir tveir sólarhringar síðan við lentum hérna í Kuala Lumpur.
So far, so good.
Ég sit hérna við gluggann í herberginu okkar og horfi út á rigninguna. Það RIGNIR sko í Malasíu! Það er rigningatímabil hérna úti og þá koma af og til svona "skúrir" ef það er hægt að kalla það því nafni, því það er eins og það sér helt úr fötu hérna. Hérna eru sem sagt bara tvær árstíðir, rigningatímabil og sumar! Það var svo sem fínasta veður hér fyrr í dag, tæplega 30 gráður en frekar skýjað en nú hellirignir sem sagt. Samkvæmt bílstjóranum sem við vorum með í morgun er rigningatímabilið ca frá ágúst/september og fram í desember (og jafnvel rúmlega það) en svo er bara sól
Fórum í gær og kíktum á skóla fyrir krakkana. Okkur leist mjög vel á skólann. Rosaflott aðstaða, en rosalangt í burtu. Það þarf að keyra í 30-50 mín (fer eftir umferðarþunga) hvora leið. Smá munur frá því að vera 2 mínútur að labba í Snælandsskóla! Við fórum svo aftur í dag og þá fóru krakkarnir í skriflegt inntökupróf. Já Sonja Margrét fór í skriflegt inntökupróf á ensku! Hún var nú reyndar frekar lokuð og vildi lítið sem ekkert segja en Sigurður talaði nú eitthvað (viðtal við skólastjórann eftir prófið) Þeir sem þekkja til Sigurðar vita að hann er mjööög mikill keppnismaður og hann greyið hálf brotnaði niður og grét smá. Honum hefur alltaf gengið mjög vel í skóla en það fór verulega í hann að skilja ekki allt og honum fannst hann alls ekki vera að standa sig
Sigurði var ráðlagt að fara beint inn á 3 ár en þau vildu að Sonja Margrét færi í n.k. forskóla fyrir 1 ár til að koma henni inn í enskuna. Við vorum mjög sátt við það þar til við fórum að skoða bækurnar sem við áttum að kaupa fyrir þau. OK hún þarf að komast inn í enskuna, en allt hitt er mjög basic og eitthvað sem ég veit að hún kann alveg. Þar fyrir utan þarf forskólinn að taka kúrs í Malay og Mandarínsku og það er eitthvað sem ég held að sé bara til að flækja hlutina fyrir henni. Ætlum að heyra betur í liðinu í skólanum og athuga hvort hún megi fara upp eða hvort hún mætti þá alla vega fara upp um áramótin þegar hún er komin betur inn í enskuna. Það gæti auðvitað verið gott fyrir hana að fara rólega af stað, nóg er nú að gerast hjá þessum elskum, en ég vil ekki að hún sé endalaust að gera eitthvað sem hún kann nú þegar. Bækurnar hjá Sigurði lofa hins vegar góðu og ég held að hann muni hafa nóg að gera, hann mun alla vega ekki geta kvartað yfir því að það sé of létt í skólanum þennan veturinn. Hann þarf auðvitað að komast inn í enskuna og það fljótt því það er margt sem hann fer í og allt námsefni á ensku. Þetta er auðvitað stærðfræði, enska (málfræði, bókmenntir o.s.frv.), landafræði, saga, franska, vísindi (líffræði, efnafræði, eðlisfræði), listir (allir læra á eitt hljóðfæri að eigin vali, myndmennt o.s.frv.), íþróttir og sund og eitthvað fleira. Þetta kemur allt betur í ljós á næstu dögum. Við gerum ráð fyrir að þau byrji á fimmtudaginn næsta í skólanum því þá er Óli ekki að vinna, en við viljum geta farið bæði með þeim svona fyrsta daginn. Þau eru smá smeik skiljanlega (sérstaklega Sonja Margrét sem vill bara fara heim til Íslands) en ég held þau séu líka smá spennt/forvitin. Fórum og keyptum sem sagt bækurnar fyrir þau áðan (ekkert smá magn af bókum, fyrir utan skólabækurnar er Sigurður t.d. með einhverjar 20 stílabækur, reikningsbækur og eitthvað fleira) og skólabúning. Sigurður á að vera í ljósgulri skyrtu og beige lituðum stuttbuxum og Sonja Margrét í ljósgulri skyrtu og gul/hvít köflóttum skokk. í leikfimi er svo líka skólabúningur, hvítar stuttbuxur og stuttermabolir í ákveðnum lit, þau áttu bæði að vera í grænum bolum. Allir verða svo að vera í hvítum sokkum og hvítum skóm.
Erum annars búin að sjá tiltölulega lítið nema leiðina í skólann og til baka (búin að keyra tvisvar þangað) Fórum líka í eitthvað mall í gær sem er aðeins í burtu frá hótelinu. Rosa flott mall og fullt af búðum sem maður þarf endilega að skoða við tækifæri Í gær vorum við aðallega í því að redda hlutum sem okkur vantar, frelsiskorti/símanúmeri hérna úti, smá snarli, hreinlætisvörum og þess háttar. Svo fjárfestum við líka í GPS tæki. Held það sé algerlega nauðsynlegt ef við ætlum að keyra eitthvað hérna, þetta er svolítið ruglingslegt gatnakerfið hérna, sérstaklega svona til að byrja með þegar maður er ekki alveg kominn inn í þetta.
Fórum svo áðan og skoðuðum eina íbúð hérna rétt hjá hótelinu. Þetta er einhver complex þar sem íslendingarnir voru áður fyrr. Styttra á hótelið (þar sem skrifstofan er) og á flugvöllinn, en af hinum staðnum sem við erum svolítið spennt fyrir. Þar eru víst allir íslendingarnir, eitthvað af krökkum (sem eru í sama skólan og krakkarnir) og meira um að vera. Komumst vonandi að skoða eitthvað þar á morgun. Íbúðin sem við skoðuðum áðan var alveg ágæt, svolítið "tómleg" (lítið af húsgögnum og þau ekkert spes) en hún var mjööög rúmgóð. 3 fín svefnherbergi, þar af risahjónasvíta með sér baði, sérherbergi fyrir húshjálpina með sérbaði fyrir hana, annað klósett, þvottahús, stórt eldhús og stór borðsstofa og stofa. Hinar íbúðirnar eru víst eitthvað meira "modern" en við sjáum aðeins til með hvað við gerum í þessum málum.
Annars höfum við verið ansi löt. Ég er í fyrsta skipti á ævinni að upplifa að tímamismunurinn sé að fara í mig og það sama á við aðra fjölskyldumeðlimi. Klukkan er núna rúmlega 6 og ég er búin að vera að sofna síðan kl. 3 í allan dag. Ætlum að gera allt til að halda okkur vakandi í dag svo við komum þessu í lag. Í gær lögðum við okkur t.d. (ég sem legg mig eiginlega aldrei) og fórum svo alltof seint að sofa og vöknuðum snemma til að vera mætt i skólann fyrir kl. 9.
Ég ætla að láta þetta nægja í bili. Læt heyra í mér fljótlega aftur,
Geisp....Rósa þreytta
Athugasemdir
Æði að fá fréttir frá ykkur. Velkomin á ykkar nýju slóðir til næstu ára! Ég mun kíkja inn daglega og sjá hvernig gengur hjá ykkur að koma ykkur fyrir. Við erum farin að safna.....fáum kannski herbergi húshjálparinnar :)
Gangi ykkur vel...risaknús frá okkur öllum!
Sirrý
Sirrý (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 11:37
Vá hvað það er gaman að lesa þetta! Maður á bara erfitt með að ímynda sér allt það sem þið eruð að upplifa! Geðveikt alveg :)
Hrefna (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 14:59
Frábært að fá fréttir af ykkur hér, rosalega er þetta spennandi hjá ykkur, kær kveðja Arney
Arney (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 15:24
Frábært að fá fréttir af ykkur Rósa mín. Krakkarnir eiga eftir að spjara sig, það tekur bara smá tíma til að aðlagast öllum þessum breytingum.
Vertu nú dugleg að skrifa svo maður geti fylgst með ykkur.
Knús og kram Harpa
Harpa (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 08:07
Spennandi að fá að fylgjast með ykkur. Við erum viss um að þið takið öll vandamál á hælinn. Kysstu börnin frá okkur og skilaðu kveðju frá frændsystkinunum.
Magnús (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 09:28
Datt hér inn alveg óvart :o) Langaði bara að kasta á ykkur kveðju og vona að ykkur gangi sem allra best í þess mikla ævintýri sem þið eruð komin í
Kær kveðja, Malla
Malla (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 10:11
Ji, þetta er aldeilis búinn að vera rússíbani hjá ykkur og örugglega svoldið spennufall í framhaldinu. Það er rosalega gaman að geta fylgst með ykkur, endilega vertu dugleg að setja inn færslur. Bestu kveðjur héðan, gangi ykkur vel á næstu dögum og vikum. Knús og kram. KristínK
Kristín Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 11:15
Frábært að geta fylgst með ykkur. Haltu áfram að vera svona dugleg að blogga svo við getum fylgst með ykkur þarna hinu megin á hnettinum. Ég veit að þið eigið eftir að pluma ykkur vel þegar fram líða stundir en auðvitað tekur á að hefja nýtt líf á nýjum stað.
kv. Valva
Valva (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.