9.9.2008 | 13:07
Styttist í flutning
Jæja í dag gengum við frá leigu á íbúð í Riana Green. Þetta er íbúðin sem okkur leist best á á laugardaginn. Emily, annar agentinn, vonaðist reyndar til að geta sýnt okkur íbúð á þessu svæði í vikunni, en það var samt alls ekki öruggt að sú íbúð yrði laus (einhverjir aðrir á undan okkur), hvað þá að hún væri jafngóð og þessi sem við skoðuðum og þegar Carol (agentinn sem var með þessa íbúð) var komin með aðra til að skoða þorðum við ekki öðru en að taka íbúðina. Við vildum endilega vera á þessu svæði, þar eru flestir krakkarnir, sundlaugin þar sem Atlanta liðið er o.s.frv. Þannig að við erum bara sátt. Eina að hún er svolítið dýr sem þýðir að við þurfum að sjá um þetta sjálf (gas, vatn, síma o.s.frv.) og ganga frá tryggingunni og það var svolítill biti fyrir okkur.
En við gengum sem sagt frá þessu öllu seinnipartinn í dag og gerum ráð fyrir að flytja inn á morgun þegar Óli kemur til baka úr fluginu. Þetta gékk samt ekki alveg snuðrulaust fyrir sig að útvega peninginn fyrir tryggingunni. Við þurftum að punga út rúmum 14.000 RM (ca 350.000) og það var ekkert voða auðvelt að ná þeim pening út með engan bankareikning hérna. Fengum rúmlega 4000 frá Atlanta (1200 USD sem er það sem þeir láta okkur fá mánaðarlega í leigu) og restin fór út af kreditkortinu og það var smá vesen eins og áður segir. Ætluðum upphaflega að ganga frá þessu öllu í gær, en eftir bankavesen dauðans þar sem við keyrðum bæjarhluta á milli og hittum illa enskumælandi afgreiðslufólk, lentum í að láta loka á nefið okkur vegna Ramadhan (föstumánuður múslima), hlaup bankaútibúa á milli með hjálplegum Ísraela og slatta úttekta úr hraðbanka, urðum við að játa okkur sigruð og ákváðum í samráði við Carol að fresta þessu um einn dag. Fórum því tímanlega af stað áðan og tókst að taka út restina, annars vegar í 3 færslum í hraðbanka og svo restina í e-u bankaútibúi þar sem þetta gékk allt mjög hratt fyrir sig (amk miðað við í gær). Þannig að núna erum við komin með íbúð og flytjum líklega inn á morgun. Kíktum einmitt við þar í dag þegar við fórum að skrifa undir. Krakkarnir enduðu í sundi með hinum krökkunum þarna fyrir utan, Sonja Margrét í brókinni og Sigurður í lánsbuxum frá Elinu hinni norsku. Þau ætluðu alls ekki að vilja koma aftur upp á hótel, enda mikið stuð í krökkunum þarna og þeim á örugglega eftir að líða mjög vel þarna.
Fyrir utan þessi bankaævintýri okkar er allt að ganga vel hjá okkur. Óli fór loksins að fljúga í nótt. Komnar tvær vikur síðan hann flaug síðast svo hann var eiginlega farinn að bíða eftir því að komast í loftið. Hann fer svo aftur að fljúga í nótt, þannig að hann er löngu farin að sofa, en ég er að leyfa krökkunum að klára að horfa á Scooby Doo, þá fara þeir að sofa og ég hangi aðeins á netinu og fer svo líka að sofa.
Krakkarnir eru búnir að vera voða duglegir að læra hér heima það sem af er vikunni og eru voða ánægð í "heimaskólanum" okkar. Ég geri svo sem ráð fyrir að önnin verði ansi stutt, bíðum bara eftir því að heyra betur hvenær þau eiga að byrja í (alvöru) skólanum. Við höfum verið að taka 4x30 mín kennslustundir með 5-10 mín frímínútum á milli þar sem þau mega kíkja aðeins í tölvuna eða fá sér eitthvað að borða.
Mér líður ágætlega. Á laugardagskvöld brotnaði ég smá niður, saknaði eitthvað voðalega allra og vantaði að fá að heyra í einhverjum. Mamma og pabbi hringdu á sunnudagskvöldið en sambandið í gegnum tölvuna var óvenjuslæmt og ég heyrði alltof lítið í þeim, þetta var kannski meira þannig að mér fannst bara svo gott að vita af þeim á hinum endanum að ég gat ekki skellt á þau. Mér fannst þau einhvern vegin vera nærri mér af því þau voru að tala við mig þó svo ég heyrði takmarkað hvað þau sögðu. Það var æðislegt að heyra í þeim, en það var líka svolítið erfitt að kveðja þau og þá átti ég smá bátt. Heyrði líka aðeins í Beggu systir í dag. Hún var búin að vera reyna ná í mig og ég náði svo að hringja í hana í gegnum Skype. Það var ótrúlega gott að heyra í henni. Shitt hvað ég sakna hennar mikið... :( Hún gerði í því að stappa í mig stálinu. Stundum gat ég varla svarað henni, það var svo stutt í tárin og í lokin held ég að við höfum báðar farið að grenja smá. En það var samt svoooo gott að heyra í henni, bjargaði alveg deginum.
Stundum þegar ég læt svona líður mér eins og ég sé alger aumingi. Ég meina það er ekki eins og við séum eina liðið sem er að standa í svona hlutum. Mér líður eins og litlum krakka með heimþrá og mér finnst ég vera orðin aðeins of gömul til þess að láta svona. Mér líður samt líka vel mjög vel þó svo ég sakni allra heima. Ég er mjög ángæð með þennan tíma sem við fáum vonandi öll saman sem fjölskylda og vona að þessi tími eigi eftir að styrkja okkar bönd. Mér líst líka voða vel á það fólk sem ég hef hitt og hlakka til að kynnast þeim. Veit það eru líka fleiri á leiðinni hingað út og þetta á örugglega eftir að verða frábært. En í augnablikinu sakna ég allra heima :(
Jæja ætla að láta þetta duga í bili. Við erum sem sagt á leiðinni út af hótelinu á morgun ef allt gengur upp. Ég geri ráð fyrir því að það geti tekið einhverja daga að fá netið til okkar í íbúðina þannig að það heyrist örugglega ekkert frá okkur fyrr en eftir helgi (vonandi fyrr samt)
Þið sem kíkið inn megið gjarnan kvitta í gestabókina eða skrifa athugasemdir við færslurnar. Síðustu daga hefur það verið toppurinn hjá mér að lesa þær og finnast ég þannig vera í smá sambandi við ykkur öll.
Love you guys...
Rósa
Athugasemdir
hæ dúllan mín,
Erla Hlín (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 13:40
Hæ Rósa mín. Það er nú ekki laust við að maður verði pínku meyr við að lesa færslurnar þínar en ég skil þig svo ótrúlega vel. Þetta er örugglega erfitt á meðan allt er að venjast. Nýr staður, nýtt fólk og allt það. Frábært að íbúðamálin eru komin á hreint, þú getur þá einbeitt þér að því að koma öllu smekklega fyrir eins þér er einni lagið.
Gangi ykkur vel að flytja. Bestu kveðjur frá klakanum (hér er rigning og rok) KristínK
Kristín (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 14:50
elsku Rósa mín, ég skil þig svo vel.... ég vona nú barasta að þú sért í hormónadrama :-) en jájá þetta verður allt mikið betra þegar þið verðið flutt, komin með net og krakkarnir byrjaðir í skólanum. Frábært hvað þú ert dugleg að halda við heimakennslunni, þú er YNDI :)
RISASTÓRT KNÚS OG KRAM!!!
kv Elísabet
Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 9.9.2008 kl. 14:51
Gott að allt gengur vel. Heimþráin lagast fljótt þegar maður er komin með sitt eigið heimili og kominn með rútínu á hversdaginn. Svo hellir maður sér bara í að kynnast fólkinu á svæðinu.................. og svo verða 2 ára liðin áður en þú veist af. gestagangurinn byrjar líka þegar maður er kominn með eigið húsnæði og það verður bara enginn tími til að hafa heimþrá.
verðum í bandi
Kristbjörg (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 19:37
Það var svo gott að heyra í þér í dag... og til hamingju með að vera búin að fá íbúðina og geta flutt inn vonandi á morgun, allavegana stutt í það;)
Þetta er allt að smella saman, orðin kennari, húsmóðir, í hita og sól..jammi jamm ég er einmitt að kenna, húsmóðir og ...í rigningu og roki;) væri svoo til í að vera hjá þér...
Spennandi tímar á næstunni.
Hlakka til að sjá fleiri myndir og fréttir. Knús og kossar á fallegu frændsystkinin mín og ykkur.
Hafið það sem allra best. Elska þig.
Kveðja "litla" syss;)
Berglind
Berglind (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 21:46
Ég kíki inn daglega til að lesa nýjar fréttir af ykkar ævintýrum! Frábært að þið séuð komin með íbúð. Það er allt öðruvísi að búa í sínu húsi heldur en að búa á hótel herbergi. Verður frábært þegar þið farið að geta komið ykkur vel fyrir.
Ég fékk svona kunnulegan hnút í magann áðan þegar ég las færsluna, man vel þegar ég var ein í Sitges, enginn Örn, engin mamma og pabbi og vinir...en þetta var svoooooo þess virði eftir smá tíma. Þetta er rosalegt ævintýri sem þið fáið upp í hendurnar, bara njóta þess í botn! Ekki spillir veðrið, hér er bara skítakuldi og rok :)
Hlakka til að heyra meira, vona að netið komi sem allra fyrst í íbúðina. Hlakka líka til að sjá myndir.
Risaknús frá okkur öllum
Sirrý og co.
Sirrý (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 22:59
Gott að heyra að þið séuð komin með íbúð. Verður miklu betra að vera komin á sinn stað heldur en að vera á einhverju hóteli. Getur þá farið að einbeita þér að því að koma ykkur fyrir og gera kósí.
Held að það sé bara eðlilegasti hlutur í heimi að upplifa heimþrá þegar maður er komin svona langt í burtu frá öllum sem maður þekkir. En þetta er ekkert smá ævintýri sem þið eruð komin í og 2 ár eru eeeenga stunda að líða.
Vona að netið detti inn fljótlega hjá ykkur, það er frábært að geta fylgst með ykkur á netinu.
kossar og knús, kv. Valva
Valva (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:09
Hæ sæta :-)
Það er alltaf svo rosalega gaman að lesa færslurnar þínar, þú ert mjög góður penni :-)
Ég efast ekki um að þið eigið eftir að koma ykkur fyrir í íbúðinni á mettíma og ef ég þekki ykkur rétt verða bæði þú og krakkarnir orðin umkringd vinum fyrr en varir :-)
En ég skil "aaaaaaalllllleiiiiiiin" tilfinninguna rosalega vel, og ég held að það skipti engu máli hvað maður er gamall, ef maður er í burtu frá þeim sem manni finnst vænt um :-)
Ég man þegar ég fór sem Au-pair til Barcelona á sínum tíma, mállaus og vitlaus og þekkti engan... Vikulegu símtölin frá mömmu og pabba voru bara grenjur frá mínum enda, og ég ætlaði að drepa grey póstburðarmanninn með augnaráðinu ef hann kom 10 mínútum of seint á daginn, þar sem ég var alltaf að bíða eftir að fá bréf ;-) En svo er þetta fljótt að líða hjá þegar maður venst aðstæðum og kemst inn í rútínu, og í lok dvalar langaði mig ekkert að fara heim aftur :-)
Hlakka til að lesa færslur þegar þið verðið aftur komin í netsamband :-)
Knús, Hófí
Hófí (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:10
Elsku Rosa,
hugsum til ykkar. Gaman ad heyra ad krökkunum lidur vel og ad thid seud thegar farin ad eignast vini og kunningja tharna.
Bestu kvedjur fra Sverige
Magnus (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:52
Elsku Rósa mín.
Ég kíki hérna reglulega til að fá fréttir af ykkur. Ekki laust við að maður fá tár í augun við að lesa sumar færslurnar hjá þér. Mér finnst þú alveg rosalega dugleg og þið öll, þið eigið eftir að græða svo mikið á þessu og komið margfallt sterkari til baka, ég er alveg ótrúlega stollt af þér elsku gamla vinkona, hafið það sem allra best og njótið þess að vera saman þið eigið það svo sannarlega inni.
Kær kveðja
þín vinkona Arney
Arney (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 19:32
Hæ elsku yndislega systir mín.
Ég verð að játa að það komu nokkur tár, ég sakna ykkar svo mikið, svo skrítið að geta ekki bara skutlast upp í kópavog og fá smá knús... en hei, ég get ekki beðið eftir að skutlast til kuala lumpur og hafa það gott með þér og ykkur.
elska þig í tætlur, farðu vel með þig
þín steinunn alltaf
Steinunn Camilla, 13.9.2008 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.