22.10.2008 | 02:08
Alltaf eitthvað nýtt að sjá og upplifa
Jæja ekki hef ég staðið við stóru orðin og bætt inn myndum... Lofa að reyna að bæta úr því við fyrsta tækifæri...
Héðan er annars allt gott að frétta. Svo sem ekki margt merkilegt gerst síðan fyrir helgi. Það var reyndar svona sport carnival hjá Sigurð í skólanum í síðustu viku. Húsin í skólanum kepptu sín á milli í alls kyns íþróttagreinum og allir gátu valið sér grein til að taka þátt í og það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart að Sigurður valdi fótbota. Í tvær vikur á undan þessu sports carnivali áttu allir að mæta á æfingar eftir skóla og svo var úrtaka fyrir hvert hús og valið í lið fyrir carnivalið. Sigurður komst í liðið og keppti á fimmtudaginn síðasta. Hann stóð sig svona líka rosavel að hann er bara umtalaður í skólanum. Kennarinn hans kom og talaði við okkur og þeir vilja endilega fá hann í skólaliðið. Þrátt fyrir að hafa verið yngstur á vellinum (liðið var blanda úr öllum bekkjum í primary, sem er upp í 6. bekk, Sigurður er i 3.bekk) stóð hann sig einna best og skólablaðið var að taka myndir af honum og aðrir kennarar en umsjónarkennarinn hans hafa verið að koma til okkar og hrósa honum. Held að hluti af þessu sé að hérna séu krakkarnir ekki eins vanir að keppa og strákarnir heima á Íslandi. Sigurður hefur auðvitað verið að keppa fullt með HK og eins og þeir sem þekkja kauða vita, er hann með brjálað keppnisskap! Við erum aðeins að spá hvernig við högum þessu því æfingarnar eru á mán og þri eftir skóla (til kl. 5) og á laugardagsmorgnum. Þannig að þetta er slatta aukakeyrsla. Er alvarlega að spá í að athuga hvort hann geti ekki bara byrjað strax og næsta önn byrjar því það er bara mánuður eftir af þessri og svo er frí allan desember. Held það verði nóg álag á honum í næsta mánuði þegar lokaprófin eru og svona og svo er hann auðvitað á æfingum hérna nær okkur á laugardögum og sunnudögum. Hann væri auðvitað til í að vera fótbolta alla daga, allan daginn en ég ætla aðeins að skoða þetta.
Annars gékk síðasta vika vel í skólanum. Sonja Margrét var smá lítil einn morguninn en fór ekkert að gráta. Í morgun fór ég með hana og hún var svona nett tæp. Held það hafi bara verið af því að ég var með henni og er viss um að þetta hafi verið allt í góðu strax og ég var farin.
En já ÉG sem sagt keyrði þau í morgun!!! Ýkt ánægð með sjálfa mig... Ég er búin að vera eitthvað svo stressuð með að keyra hérna. Er auðvitað búin að keyra fullt hérna í nánasta umhverfi, út í mollin hérna í kring, í ræktina, í Ikea og svona en lítið verið að keyra í skólann og bara úti á hraðbrautinni í lengri ferðir. Tók mig til og keyrði í og úr skólanum á miðvikudaginn þegar við sóttum krakkana. En þá var Óli með mér og það er muuuuun minni umferð eftir hádegi en á morgnanna. En í morgun var ég sem sagt búin að lofa keyra liðið, Steinunn og co voru í kveðjupartýi í gærkveldi og Óli er að fljúga, þannig að þetta var ágætis pressa á mér að drífa bara í því að gera þetta sjálf. Það var slatta umferð, sérstaklega á heimleiðinni, meira að segja meiri en nokkru sinni fyrr á leiðinlegasta hlutanum, en þetta gékk vonum framar og ég er sem sagt komin heim óslösuð og á heilum bíl! Þannig að núna held ég að ég geti hvað sem er! (ein smá ánægð með sig... )
Annars er ég bara dauð í líkamanum í dag og þó að það sé miðvikudagur held ég að ég segi pass við ræktinni í dag. Fór í ræktina á mánudaginn og var nett þreytt eftir skrítna nótt þar sem ég einhverra hluta vegna svaf eitthvað asnalega og vaknaði dauðþreytt. Var rétt byrjuð að hita upp þegar Óli kemur með einkaþjálfarann og sendir mig í tíma. Hafði ekki hugmynd um að við værum að fara að hitta hann. Óli sem var álíka þreyttur og ég var svona líka "almennilegur"að hann vildi endilega að ég færi ein í tíma hjá gaurnum, hann vissi sko alveg hvað beið mín og ég held satt að segja að hann hafi ekki nennt því/treyst sér í tíma hjá gaurnum. Alla vega þá var þetta bara killer æfing og í fyrsta skipti á ævinni hélt ég að ég myndi bara æla á æfingunni. En ég komst einhvern vegin í gegnum hana en sit núna uppi með harðsperrur dauðans og stigar eru mínir helstu óvinir í augnablikinu. Er alla vega mjög fegin því í augnablikinu að það er lyfta í húsinu okkar
Í gær fór ég svo í annað skiptið inn í Chinatown. Fór með Steinunni og Wendy í málningarleiðangur fyrir art tímann okkar. Löbbuðum aðeins um og fengum okkur að borða áður en við fórum að kaupa hana. Þegar við vorum búin að borða og við ætluðum að rölta yfir í búðina sem við komum til að fara í gerði þessa líka brjáluðu rigningu og einhverra hluta vegna var engin okkar með regnhlíf (eitthvað sem sannir Malasíubúar eru alltaf með í bílnum sínum og veskinu sínu) Enduðum á því að gefast upp á því að bíða eftir að það stytti upp og hlupum yfir götur og undir skyggnum á húsum. En fengum svo leiðbeiningar um styttri leið sem reyndist mjög svo mikil upplifun. Þetta var svona hálfgert sund/göng sem voru á milli húsa þar sem sem innfæddir eru með svona matarmarkað. Þetta var eins og að koma inn í einhvern annan heim og mér fannst ég stödd í einhverri bíómynd. Það var mjög lágt til lofts, eiginlega eins og við værum neðanjarðar, allt grátt, hrátt og skítugt, pípur/lagnir í loftinu, rennur fullar af vatni upp við veggina og svo mjór gangur til að labba á. Sitt hvoru megin voru svo borð með alls kyns matarkyns til sölu. Þarna voru ávextir, þurrkuð smálsíli, fiskur, kettir í búri (held samt ekki til að borða...vona það alla vega ekki!) við hliðina á svínslöppum, lifandi hænur í búri og ég hreinlega veit ekki hvað. Kallarnir sátu skítugir uppi á borðum og búralegar kellingar með svuntur að afgreiða. Það var vibbalykt þarna inni en samt einhvern vegin mjög spes að vera þarna inni og mikil upplifun. Við Steinunn vorum eina hvíta fólkið þarna og meira að segja Wendy sem er local vissi ekki að þessi markaður væri enn við lýði, hafði heyrt af einhverju svona en hélt að það væri löngu búið að leggja þetta af. Efast um að mig langi aftur þangað en það var samt mjög gaman að sjá þetta.
Framundan er svo löng helgi hjá okkur því það er frí í skólanum hjá krökkunum á mánudag og þriðjudag vegna Deepavali, eða hátíðar ljóssins hjá hindúum. Svolítið merkilegt að vera í svona fjölmenningarlandi. Það þarf auðvitað að taka tillit til allra trúarbragða og þess vegna eru endalausir frídagar svo það sé nú ekki að vera gera upp á milli neinna. Ekki að ég sé neitt að kvarta, finnst ágætt að hafa krakkana hjá mér og ekki eru þau ósátt Það er síðan reyndar ekkert frí í nóvember en að honum loknum eru þau svo líka komin í rúmlega mánaðar jólafrí!
Jæja ætla að fara vera dugleg áður en Óli kemur heim úr flugi, brjóta saman þvott, búa um og eitthvað svona skemmtilegt.
Kv. Rósa kappaksturshetja
Athugasemdir
Váááá, það er aldeilis.....
Sigurður bara að brillera sem fótboltagæi (enda ekki við öðru að búast), orðinn frægur og allt með ljósmyndara og allan pakkann!!!
Rósa mín, til hamingju með aksturinn, auðvitað gastu þetta, maður verður stundum bara að stinga sér í djúpu laugina og svo má maður alveg rifna af stolti eftir það!!! You go girl :)
Æði að heyra svo mikið í ykkur núna....haltu áfram að blogga.
Knús frá okkur
Sirrý
Sirrý (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 11:44
Hæ elskan, rosalega gaman að heyra frá ykkur. Massa flott hjá þér að keyra þau(eins og Óskar segir þessa dagana-massa flott!!)... ég efast ekki um að það hafi verið erfitt. Frábært hvað þið eruð dugleg í ræktinni og hvað þú ert að upplifa skemmtilega hluti. Elska ykkur og sakna mest... ekki gleyma að segja Sigurði Erni og Sonju Margréti það.
Kossar og knús frá okkur
Berglind, Hrafn, Óskar og Lúkas.
Berglind Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 22:15
Hæ kæra fjölskylda!
Mikið er gaman að lesa um aktífitetið hjá ykkur þarna. Þetta er náttúrulega bara ævintýri úr allt öðrum hverdegi en maður er í hér. Skil að þú hafir verið ánægð með aksturinn. Hefði ekki verið lítil montin að klára svona rúnt sjálf í allt annarri umferðamenningu.
Við hugsum til ykkar reglulega hérna... og Sonju Margrétar í tengslum við 6 ára menninguna í Snælandsskóla.
Mér finnst nú ekki skrítið að Sonja Margrét sé lítil í sér annað slagið. Það tekur alltaf 2-3 mánuði að fara að líða þægilega í nýju landi. Amk fyrir börn. Eftir þann tíma eru krakkar yfirleitt orðnir öruggari með sig í tungumálinu og farnir að venjast nýju umhverfi. Hún á vonandi bara eftir að blómstra þarna, fjörkálfurinn sem hún er.
Segi annars til lukku með fótboltakappan. Sá stendur sig.
Við sendum ykkur hlýjar kveðjur frá Íslandinu sem er hvítt í augnablikinu.
Addý, Gummi og stelpurnar.
Addý (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 00:07
heil og sæl fjölskylda:)
gaman að lesa bloggið ykkar. Gott að allt gengur vel hjá ykkur:)
Við vorm í skírninni hjá bróður han óla í gær, voðalega sætur hann Daníel:) Hann sagði okkur frá þessu bloggi og þar sem við komumst ekki í kveðjuveisluna ykkar þá ákvað ég að kasta á ykkur kveðju hér:)
kv. Ásdís, Svavar, Laufey Rán og Kristín Ylfa:)
Ásdís Svavar Laufey Rán og Kristín Ylfa (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.