Færsluflokkur: Bloggar

5 ára brúðkaupsafmæli

Við hjónin eigum sem sagt 5 ára brúðkaupsafmæli í dag.  Það verður nú samt ekkert spes gert í tilefni dagsins því Óli er að fara að vinna í nótt.  Hann bauð mér samt út að borða á Burger King í hádeginu, grand á því þessi elska Wink  Annars sagði ég honum að vegna tímamismunarins myndum við bara halda upp á daginn á morgun og við erum að spá í fara út að borða á morgun þegar hann er ekki á leiðinni í vinnuna og getur notið þess.

Annars hafa síðustu dagar verið ágætir.  Það hefur reyndar rignt ansi mikið og því fylgja yfirleitt þrumur og eldingar.  Ég hélt að það gæti nú rignt hressilega heima, en omg, það er sko ekkert miðað við rigninuna hérna úti.  Síðasta sunnudag var t.d. svo mikið rigning (og vindur reyndar líka) að við sáum ekki yfir hraðbrautina sem er hér rétt fyrir utan húsið!  Þrumurnar þá voru líka þvílíkar að mér leið eins og ég væri stödd á brjáluðu átakasvæði.  Húsin nötruðu í þessum ósköpum öllum og mér stóð varla á sama á tímabili.

Krakkarnir eru núna komnir í vikufrí í skólanum.  Framundan er það sem kallað er Hari Raya.  Ramadhan hefur sem sagt staðið yfir síðastliðinn mánuð og núna í vikunni líkur föstumánuðinum með tilheyrandi matarveislum og gleði.  Í tilefni af því var skemmtun í skólanum á föstudaginn.  Foreldrum var boðið að koma og fylgjast með.  Sonja Margrét og aðrir nemendur í Reception voru búin að æfa eitt lag (og dans) sem þau sungu á skemmtuninni.  Flestir krakkarnir voru í hefðbundnum malasískum sparifötum sem voru mörg hver mjög litrík og falleg.  Sonja Margrét, og þeir sem ekki áttu slíkan fatnað, var auðvitað bara í sínum skólafötum.  Þetta gékk mjög vel hjá henni og hún skemmti sér vel.  Sigurður kom ekki fram á sýningunni en sat með bekkjarfélögum sínum og fylgdist spenntur með.

En þó svo krakkarnir séu komnir í frí þurfa þau samt að læra fullt heima.  Bjóst svo sem við því að Sigurður fengi eitthvað heimanám í fríinu en omg hvað Sonja Margrét þarf að skila miklu af sér eftir "fríið."  Það er svo sem alltaf eitthvað heimanám hjá þeim á hverjum degi, þannig að kannski hefði ég átt að búast við þessu.  Heimanámið fyrir vikuna hjá henni er sem sagt:  Malay: 1 bls í vinnubók (og þar sem ég skil svoooo mikið í Malay sé ég ekki hvernig ég á að geta aðstoðað hana með þetta).  Enska: 3 bls í vinnubók, skrifa B/b og C/c (ein blaðsíða hvor stafur , ca 10 línur), læra að stafa 10 orð sem hún fékk með sér heim.  Stærðfræði: 8 bls í vinnubókum (4 bls í tveimur bókum).  Vísindi: 1 bls í vinnubók.  Og svo á hún helst að lesa líka!  Kannski er ég rugluð en mér finnst þetta bara ansi mikið fyrir ekki eldri krakka sem á að vera í fríi.  Sigurður þarf líka að læra slatta heima og svo þarf hann að nýta tímann vel og vinna upp það sem hann er búinn að missa af.  Svo lítið merkilegt að sjá hvað þau eru að læra í skólaum og bera það saman við það sem þau eru með heima.  Hann er t.d. núna að læra um Forn Grikki, muninn að Aþenubúum og Spartverjum, hvað lýðræði er o.s.frv.  Mjög spennandi allt saman.  Svo var hann líka að byrja í frönsku og finnst það mjög spennandi.  Hann er ótrúlega duglegur í enskunni, kemur okkur foreldrunum þvílíkt á óvart, ég hreinlega vissi ekki að hann kynni svona mikið.  En engu að síður er þetta svolítið að flækjast fyrir honum t.d. í bókmenntum og málfræði, hann vantar svolítið upp á þar þó svo hann tali fullt og skilji mikið.  En ég er viss um að hann nær þessu á smá tíma, hann hefur ekki þurft að hafa mikið fyrir því að læra fram að þessu.

Í morgun fór Sigurður svo á fyrstu fótboltaæfinguna sína hérna úti.  Við gerðum reyndar tilraun til að fara á æfingu um síðustu helgi en vissum ekki að það var búið að fella niður þá æfingu (átti að vera annars staðar í bænum).  Þessar æfingar eru hérna rétt hjá á þaki verslunarmiðstöðvar!  Við erum ekki nema innan við 5 mínútur að keyra þangað, þannig að þetta hentar okkur ágætlega.  Okkur leyst ágætlega á þjálfarana, sá sem er greinilega þarna yfir er einhver breskur strákur/maður og hann fór ágætlega í alls kyns tækniatriði sem hann lét þá æfa ágætlega og virtist fylgjast vel með þeim og leiðrétta þá ef eitthvað var ekki rétt.  Í lokin spiluðu þeir svo aðeins og þá sást alveg að strákarnir eru ekki vanir að keppa, voru svolítið í því að elta allir boltann í stað þess að spila upp á einhverjar stöður eins og er búið að vera kenna Sigurði og stráknum í HK á æfingum.  Þetta voru strákar á aldrinum 5-8 ára sem voru með Sigurði á æfingunni og svo var þeim skipt upp, greinilega eftir aldri, þannig að Sigurður var að æfa með strákum á svipuðu reki.  Þó svo að þeir hafi verið á mismunandi stað þessir strákar, fótboltalega séð, var greinilegt að það voru nokkrir þarna ágætir.  Veit ekki alveg hvað Sigurður fær mikla þjálfun í að spila þarna, en ég hugsa að hann getir lært fullt þarna tæknilega séð og það er auðvitað það sem þetta snýst aðallega um þegar þeir eru yngri, ef þeir ná upp góðri tækni er hitt alger kökusneið!

Við Óli erum svo á leiðinni að fara að hreyfa okkur líka.  Fórum í gær og gerðumst meðlimir í voða fínum klúbbi hérna rétt hjá.  Gymið hérna fyrir íbúðirnar er sem sagt ekkert til að hrópa húrra yfir og flestir sem við þekkjum hérna eru að æfa þarna.  Aðstaðan er alveg til fyrirmyndar, ný og fín tæki, nóg af tækjum til að hita upp, fullt af sjónvörpum, 3 salir með ótrúlega spennandi tímum, aðstaða til að hvíla sig og fá sér að drekka, slappa af og kjafta aðeins og mjög snyrtileg og flott búningaaðstaða.  Þegar maður verður meðlimur fær maður sjálfkrafa mælingu og 3 tíma hjá einkaþjálfara sem útbýr fyrir mann prógramm.  Við stefnum að því að fara c.a. þrisvar í viku í ræktina eftir að við erum búin að skutla krökkunum í skólann og reyna svo að fara í tennis og eitthvað annað inn á milli.  Hljómar mjög auðvelt, núna er bara að standa við stóru orðin og drulla sér í ræktina! 

Næsta vika verður svo örugglega mjög næs, fjölskyldulega séð.  Krakkarnir eru í fríi í skólanum og flugið sem Óli átti að fara í á þri og koma heim á fim var fellt niður.  Þannig að Óli er á leiðinni í rúmlega vikufrí líka.  Óli er ekkert voða ánægður með það að fá svona fá flug en ég er ekkert ósátt að það hitti alla vega þannig á að hann sé í frí þegar krakkarnir eru í fríi.  Þannig að vonandi getum við gert eitthvað sniðugt í vikunni, farið með krakkana í einhvern skemmtigarð eða keyrt eitthvað um og skoðað.  Kemur allt í ljós. 

Jæja læt þetta duga í bili...

Lov u all...

Rósa

 


Regla að komast á hlutina

Hálflangt síðan þaðhefur heyrst í okkur...sorrý!!!

Málið er bara að netið heima er ekki að gera sig.  Það var mjöööög slow til að byrja með en núna síðustu daga hef ég bara eiginlega ekki náð að tengjast netinu.  Og ef maður nær að tengjast er það alltaf að detta út.  Þannig að við fórum í gær og sóttum um landlínu og adsl inn í íbúðina.  Það er talað um að það taki í kringum viku að fá þetta í gegn, en við gerum ráð fyrir því að það taki eitthvað lengri tíma því núna er frí, Hari Rayja, framundan hjá þeim.  Ramadhan er sem sagt að enda og hálfgerð jól framundan með tilheyrandi fríi hjá liðinu.  Þannig að á meðan verðum við (og þið sem lesið bloggið) að vera þolinmóð ;)

Þannig að núna sit ég hérna á Starbucks með fínu samlokuna mína, caramel cream frappuccino (omg hvað hann er góður...) og nýt þess að geta surfað um á netinu á eðlilegum hraða...

Krakkarnir eru byrjaðir í skólanum, byrjuðu á mánudaginn.  Við keyrðum þau á mánudaginn og Óli fór með Sigurð og ég með Sonju Margréti.  Ég fékk að fara inn með Sonju Margréti og hún var svona smá feimin/hrædd til að byrja með. Svoleiðis kramdi hendina mína að ég var alveg að drepast...hún ætlaði sko að sjá til þess að ég færi ekki neitt.  En svo þegar ég var búin að vera með henni í um klst fóru allir krakkarnir í morgunmat og þá leyfði hún mér að fara og fór með kennaranum og hinum krökkunum.  Ég var samt með hjartað í brókinni þegar við keyrðum í burtu.  En kennarinn var með gsm-inn hjá mér og lofaði að hringja ef það væri eitthvað að.  Við kíktum til Gumma og Steinunnar og skiluðum þeim bílnum þeirra (Hann byrjaði nefnilega vel hjá okkur dagurinn, við höfðum fengið skrúfu í dekkið og fengum því lánaðan bílinn þeirra til að keyra okkar krakka og Tinnu dóttir þeirra í skólann, enda ágætlega löng leið)   Kjöftuðum aðeins við þau þegar við komum til baka og svo ákváðu kallarnir að fara að láta laga dekkið en ég fór með Steinunni og mömmu hennar í hand- og fótsnyrtingu. Þetta var frekar næs, verð að segja það, en ég var nú samt með nett samviskubit að sitja þarna og láta dúlla við mig og börnin mín voru "einhvers staðar" úti í bæ og ég vissi ekkert hvernig þeim leið.  Fórum svo tímanlega að sækja krakkana þegar ég var búin.  Sóttum fyrst Sonju Margréti og okkur til mikillar gleði var svona líka gaman í skólanum!  Þvílíkur léttir, get ekki sagt annað.  Ég var búin að vera svo stressuð út af henni þar sem hún talar litla sem enga ensku, en þetta gékk sem sagt bara mjög vel.  Sigurður var svo búinn aðeins seinna (Tímarnir hjá Sonju Margréti eru búnir kl. 14 en hún bíður með kennaranum sínum og fleiri krökkum til kl. 15:30 þegar Sigurður og hinir krakkarnir í Primary/secondary school eru búnir)  Sigurður var líka þvílíkt ánægður og var meira að segja búinn að eignast einn nýjan vin, hann Ian.  

Krakkarnir fóru svo aftur í gær og svo erum við sem sagt nýbúin að keyra þau í skólann í morgun.  Allir sem sagt ánægðir með skólann sinn og okkur foreldrunum líður voða vel með það að krakkarnir séu sáttir í skólanum.

Dagurinn í gær var samt frekar spes.  Óli var ekki að vinna, þannig að þegar við vorum búin að skutla þeim og keyra til baka (rúmlega 1 1/2 klst sem fer í það) að þá skelltum við okkur á Starbucks.  Svo fórum við í tennis og tókum aðeins á því í sólinni.  Ég komst að því að ég er mjöööög léleg í tennis.  Hef ekki sveiflað tennisspaða í ansi mörg ár og er ansi hrædd um að það hafi verið nokkuð augljóst í þarna í gær ;)  Kannski ekki mjög challenging fyrir Óla að spila við mig.  Kíktum svo aðeins í sund og sólina og hittum þar enn einn Íslendinginn, hana Ástu.  Við erum sem sagt smám saman að kynnast liðinu hérna.  Fórum upp fengum okkur að borða og svona.  Ætluðum svo að fara að gera okkur tilbúin til að fara og sækja krakkana þegar Gummi hringdi og sagðist geta sótt þau því hann væri að fara með Júlla (einn annar Íslendingur sem er að spá í að flytja hingað um áramótin með sína fjölskyldu) og sýna honum skólann.  Þannig að við héldum bara áfram dúlleríinu þangað til krakkarnir komu.  Þá var lært heima og svo fengu krakkarnir að kíkja aðeins í laugina.  Þar var fullt af Atlanta liði (aðallega samt útlendingar) sem sat og drakk bjór og kjafaði og við sátum þar til ca 19:30 og fórum þá upp, skelltum í okkur pizzu og svo var það bara bólið fyrir krakkana, því nú er vaknað snemma á morgnanna, eða kl. rúmlega 6!

Þannig að þetta er allt að koma hjá okkur.  Sem betur fer (fyrir mig og krakkana alla vega,veit ekki hvort Óli er jafnsáttur) hefur Óli ekki verið að fljúga mikið (einhver 5 eða 6 flug sína við komum) og þetta er nokkuð rólegt fram yfir helgi (flug í nótt og á laugardag og svo á þriðjudaginn)  En þá hefst líka ágætis törn, 11 flug á 13 eða 14 dögum.  En við höfum alla vega haft fínan tíma saman áður en krakkarnir  byrjuðu í skólanum, getað komið okkur ágætlega fyrir og svona.  

Það nýjasta hérna er að ég er farin að láta mig dreyma um að komast heim í desember með krakkana.  Það frí í skólanum þeirra allan desember og auðvitað nóg að gera í Gulli og Silfri á þeim tíma.  Þannig að ef við getum reddað ID-miðum með Ethiad (sem Óli var að fljúga fyrir í Abu Dhabi) til London (eða bara á einhvern áfangastað Icelandair) þá getur vel verið að við kíkjum heim.  Krakkarnir gætu þá farið í skólann heima, hitt vinina og svona.  Óli gæti ekki verið með okkur allan tíma, vonandi kíkt heim í kringum jólin, en þetta er allt mjög óljóst og það er alls ekki víst að af þessu verði.  Ég vona það samt.  Það var æði að hitta alla og knús í bak og fyrir.  Því þó að það sé alls ekki slæmt að vera hérna, fínn tími sem við fáum saman, ýmislegt nýtt og spennandi sem við erum að sjá og kynnast, sakna ég samt fjölskyldunnar heima og allra vinanna.  Þannig að nú krossa allir allt sem þeir geta og þá er aldrei að vita nema að við birtumst á klakanum...

Jæja Frappuccinoinn er löngu búinn og Óli sem er með batteríslausa tölvu og enga snúru/hleðslutæki, er farinn að bíða eftir mér.  

Knús á ykkur öll og vonandi get ég látið heyra í mér fljótt aftur.

Kv. Rósa


Formlega orðin íbúi í Riana Green

Jæja þá erum við flutt, komin með netið og allt!

Við stefndum að því að flytja inn á miðvikudeginum þegar Óli var búinn að vinna. Það var svo rúmlega þriggja tíma seinkun hjá honum, þannig að við fluttum ekki inn fyrr en á fimmtudeginum. Fórum samt eina ferð með drasl á miðvikudeginum ásamt því að fara í verslunarferð dauðans í Ikea. Það var reyndar svona frekar fyndin ferð. Mér leið eins og ég væri tvítug að byrja að búa (svona fyrir utan krakkagemlingana sem voru með í þetta skiptið). Okkur vantaði auðvitað allt, diska, glös, hnífapör, kodda og sængur, rúmföt, potta, pönnur o.s.frv. og því var auðvelt að ná að fylla tvær kerrur.

Á fimmtudeginum fórum við í fínan morgunmat á hótelinu og svo var öllu pakkað í lúxuskerruna okkar (Proton Waja-Malasísk eðalframleiðsla) og er óhætt að segja að þröngt hafi sáttir mátt sitja. En við komumst með allt dótið í einni ferð og það munaði alveg um það. Sjónavarpskallinn kom stuttu eftir að við vorum mætt á svæðið (auðvitað mjög nauðsynlegt að geta farið að horfa strax á imbann) Erum að borga um 2500 á mánuði fyrir einhverjar enskar stöðvar, aðallega fréttir, 3-4 bíórásir, einhverjar íþróttarásir (getum alla vega horft á enska boltann, meistaradeildina og F1) og 4 eða 5 barnarásir. Eina sem vantar tilfinnanlega er almennileg rás með góða bandaríska þætti (er með 1 eða 2 rásir en það virðist vera aðeins eftir á) Engu að síður erum við sátt og ekki skaðar að þetta er aðeins ódýrara en stöð2 og sýn!

Skelltum okkur svo í supermarkaðinn og versluðum slatta þar. Það vantar auðvitað allt, hreinlætisvörur, allt krydd o.s.frv. þannig að okkur tókst að eyða um 20.000 íslenskum krónum og fylla tvær kerrur. Okkur virðist ganga vel að eyða peningum þessa dagana...

Þegar við komum heim og ég ætlaði að fara ganga frá hlutunum kom í ljós að íbúðin var ekkert alltof vel þrifin (og er þá vægt til orða tekið). Áður en ég gat hugsað mér að setja eitthvað inn í ísskápinn eyddi ég tæpum 2 klst í að þrífa hann. En hann er líka ágætlega hreinn núna!  Fengum líka heimsókna frá gaskallinum sem tengdi allt fyrir okkur og nú get ég eldað eins og vindurinn, hehe...

Óli var að fara að fljúga um nóttina og þurfti því að leggja sig en ég hélt áfram að koma okkur aðeins fyrir. Náði að ganga frá flestu þarna um kvöldið, en átti þó eftir að klára taka fötin upp úr töskunum og klára að ganga frá dótinu inni í eldhúsinu. Málið er að eldhúsið er HUGE og ógeðslega margir skápar og ég hreinlega vissi ekki hvar ég vildi setja hlutina og hvaða skápa ég vildi helst nota. Ákvað því að taka nóttina í það að melta þetta aðeins.

Ég setti samt í algeran forgang að taka niður alls konar "drasl" sem eigendurnir áttu og koma fyrir í efri skápum (nægt skápapláss hérna) Tók niður ótrúlegt magn af gerviblómaskreytingum (set inn myndir af þessu við tækifæri, skreytingarnar náðu næstum að fylla borðstofuborðið) Fyrir utan að mér finnast gerviblóm yfirleitt frekar ljót að þá voru þessi einstaklega gervileg, það var bara ekkert eðlilegt við þau. Það er hægt að fá svona gerviblóm út um allt hérna og þau eiga það flest öll sameiginlegt að vera einstaklega gervileg. Færði líka aðeins til húsgögn (ógeðslega ljótur hornskápur t.d. í stofunni fór þangað sem minna sást í hann), skipti um áklæði á sófanum (er dökkbrúnn og hvítur og svo er hægt að velja um rautt sem var á eða beige sem var inni í skáp, setti beige á) og tók niður geðveiku gardínurnar í svefnherberginu svo ég gæti sofið án þess að fá martröð (þetta voru vængir sitt hvoru megin og var hver vængur þrílitaskiptur, rauður, hvítur og gulur, geðveikt flott eða þannig) Tók niður hvítar gardínur sem voru á gangi þar sem engin þörf er á og er óhætt að segja að andrúmsloftið í svefnherberginu hafi skánað mikið við það að marglitu gardínurnar hyrfu upp í skáp. Einhverjar ljótar Ikea hillur flugu niður af veggjunum og þar lét ég reyndar staðar numið þennan daginn og fór að sofa með krökkunum, sem fengu að kúra hjá mér þessa fyrstu nótt, enda Óli að vinna.

Morguninn eftir kláraði ég svo að taka upp úr töskunum okkar Óla og ganga frá í eldhúsinu og eftir hádegi kláraði ég að taka upp úr töskum krakkana. Þannig að núna er þetta allt að koma. Er svo búin að vera nota síðustu daga og þrífa, ganga frá inni á baðherbergjunum, þvo allan þvottin sem er búinn að vera safnast upp og svona. Erum búin að ná að fara aðra ferð í Ikea og eyða aðeins meiru þar. Fórum þangað á laugardaginn og þangað förum við aldrei aftur um helgi. Held það hafi allir kínverjar í Kuala Lumpur verið þar samankomnir. Þetta var bara crazy... Fólk alls staðar og maður gat varla hugsað. Enda voru allir fegnir þegar við komumst út.

Í gær keyrði ég svo í fyrsta skipti hérna úti. Þurftum að skjótast í búðina sem er hér rétt hjá og það hentaði mér ágætlega að prófa þá að keyra. Þetta er stutt og mjög einföld leið, getum meira að segja að keyrt þangað án GPS (er reyndar örugglega eini staðurinn sem við treystum okkur til að keyra til án GPS en það er önnur saga...) Það gékk ágætlega en það á samt eftir að taka mig slatta tíma að venjast því að bíllinn sér svona "breiður" mér á vinstri hönd, enda minnti Óli mig nokkrum sinnum á að ég væri komin ansi nálægt vegarbrúninni Wink

Það er sem sagt bara allt ágætt að frétta héðan. Mér er farið að líða mun betur. Sakna auðvitað allra heima þvílíkt, en mér líður samt einhvern vegin betur. Heyrði t.d. í mömmu og pabba í gær og það var ekki eins erfitt að tala við þau eins og fyrir viku síðan. Erum svona smám saman að venjast öllu hérna. Held reyndar að það hafi verið svo margt að gerast núna síðustu daga að ég hef varla haft tíma til að velta mér upp úr þessum hlutum og vorkenna sjálfri mér. Sé til hvernig þetta verður þegar krakkarnir byrja í skólanum (nei, þau eru ekki enn byrjuð, en byrja vonandi í vikunni), Óli er að vinna og ég hef ekkert annað að gera en að velta mér upp úr hlutunum.

Ætla að láta þetta duga í bili. Takk öll fyrir commentin ykkar, það er alveg ómetanlegt að lesa þau.

Lov u,

Rósa


Styttist í flutning

Jæja í dag gengum við frá leigu á íbúð í Riana Green.  Þetta er íbúðin sem okkur leist best á á laugardaginn.  Emily, annar agentinn, vonaðist reyndar til að geta sýnt okkur íbúð á þessu svæði í vikunni, en það var samt alls ekki öruggt að sú íbúð yrði laus (einhverjir aðrir á undan okkur), hvað þá að hún væri jafngóð og þessi sem við skoðuðum og þegar Carol (agentinn sem var með þessa íbúð) var komin með aðra til að skoða þorðum við ekki öðru en að taka íbúðina.  Við vildum endilega vera á þessu svæði, þar eru flestir krakkarnir, sundlaugin þar sem Atlanta liðið er o.s.frv.  Þannig að við erum bara sátt.  Eina að hún er svolítið dýr sem þýðir að við þurfum að sjá um þetta sjálf (gas, vatn, síma o.s.frv.) og ganga frá tryggingunni og það var svolítill biti fyrir okkur.  

En við gengum sem sagt frá þessu öllu seinnipartinn í dag og gerum ráð fyrir að flytja inn á morgun þegar Óli kemur til baka úr fluginu.  Þetta gékk samt ekki alveg snuðrulaust fyrir sig að útvega peninginn fyrir tryggingunni.  Við þurftum að punga út rúmum 14.000 RM (ca 350.000) og það var ekkert voða auðvelt að ná þeim pening út með engan bankareikning hérna.  Fengum rúmlega 4000 frá Atlanta (1200 USD sem er það sem þeir láta okkur fá mánaðarlega í leigu) og restin fór út af kreditkortinu og það var smá vesen eins og áður segir.  Ætluðum upphaflega að ganga frá þessu öllu í gær, en eftir bankavesen dauðans þar sem við keyrðum bæjarhluta á milli og hittum illa enskumælandi afgreiðslufólk, lentum í að láta loka á nefið okkur vegna Ramadhan (föstumánuður múslima), hlaup bankaútibúa á milli með hjálplegum Ísraela og slatta úttekta úr hraðbanka, urðum við að játa okkur sigruð og ákváðum í samráði við Carol að fresta þessu um einn dag.  Fórum því tímanlega af stað áðan og tókst að taka út restina, annars vegar í 3 færslum í hraðbanka og svo restina í e-u bankaútibúi þar sem þetta gékk allt mjög hratt fyrir sig (amk miðað við í gær).  Þannig að núna erum við komin með íbúð og flytjum líklega inn á morgun.  Kíktum einmitt við þar í dag þegar við fórum að skrifa undir.  Krakkarnir enduðu í sundi með hinum krökkunum þarna fyrir utan, Sonja Margrét í brókinni og Sigurður í lánsbuxum frá Elinu hinni norsku.  Þau ætluðu alls ekki að vilja koma aftur upp á hótel, enda mikið stuð í krökkunum þarna og þeim á örugglega eftir að líða mjög vel þarna.

Fyrir utan þessi bankaævintýri okkar er allt að ganga vel hjá okkur.  Óli fór loksins að fljúga í nótt.  Komnar tvær vikur síðan hann flaug síðast svo hann var eiginlega farinn að bíða eftir því að komast í loftið.  Hann fer svo aftur að fljúga í nótt, þannig að hann er löngu farin að sofa, en ég er að leyfa krökkunum að klára að horfa á Scooby Doo, þá fara þeir að sofa og ég hangi aðeins á netinu og fer svo líka að sofa.  

Krakkarnir eru búnir að vera voða duglegir að læra hér heima það sem af er vikunni og eru voða ánægð í "heimaskólanum" okkar.  Ég geri svo sem ráð fyrir að önnin verði ansi stutt, bíðum bara eftir því að heyra betur hvenær þau eiga að byrja í (alvöru) skólanum.  Við höfum verið að taka 4x30 mín kennslustundir með 5-10 mín frímínútum á milli þar sem þau mega kíkja aðeins í tölvuna eða fá sér eitthvað að borða. 

Mér líður ágætlega.  Á laugardagskvöld brotnaði ég smá niður, saknaði eitthvað voðalega allra og vantaði að fá að heyra í einhverjum.  Mamma og pabbi hringdu á sunnudagskvöldið en sambandið í gegnum tölvuna var óvenjuslæmt og ég heyrði alltof lítið í þeim, þetta var kannski meira þannig að mér fannst bara svo gott að vita af þeim á hinum endanum að ég gat ekki skellt á þau.  Mér fannst þau einhvern vegin vera nærri mér af því þau voru að tala við mig þó svo ég heyrði takmarkað hvað þau sögðu.  Það var æðislegt að heyra í þeim, en það var líka svolítið erfitt að kveðja þau og þá átti ég smá bátt.  Heyrði líka aðeins í Beggu systir í dag.  Hún var búin að vera reyna ná í mig og ég náði svo að hringja í hana í gegnum Skype.  Það var ótrúlega gott að heyra í henni.  Shitt hvað ég sakna hennar mikið... :(  Hún gerði í því að stappa í mig stálinu.  Stundum gat ég varla svarað henni, það var svo stutt í tárin og í lokin held ég að við höfum báðar farið að grenja smá.  En það var samt svoooo gott að heyra í henni, bjargaði alveg deginum.  

Stundum þegar ég læt svona líður mér eins og ég sé alger aumingi.  Ég meina það er ekki eins og við séum eina liðið sem er að standa í svona hlutum.  Mér líður eins og litlum krakka með heimþrá og mér finnst ég vera orðin aðeins of gömul til þess að láta svona.  Mér líður samt líka vel mjög vel þó svo ég sakni allra heima.  Ég er mjög ángæð með þennan tíma sem við fáum vonandi öll saman sem fjölskylda og vona að þessi tími eigi eftir að styrkja okkar bönd.  Mér líst líka voða vel á það fólk sem ég hef hitt og hlakka til að kynnast þeim.  Veit það eru líka fleiri á leiðinni hingað út og þetta á örugglega eftir að verða frábært.  En í augnablikinu sakna ég allra heima :(

Jæja ætla að láta þetta duga í bili.  Við erum sem sagt á leiðinni út af hótelinu á morgun ef allt gengur upp.  Ég geri ráð fyrir því að það geti tekið einhverja daga að fá netið til okkar í íbúðina þannig að það heyrist örugglega ekkert frá okkur fyrr en eftir helgi (vonandi fyrr samt)

Þið sem kíkið inn megið gjarnan kvitta í gestabókina eða skrifa athugasemdir við færslurnar.  Síðustu daga hefur það verið toppurinn hjá mér að lesa þær og finnast ég þannig vera í smá sambandi við ykkur öll.

Love you guys...

Rósa

 


Hús og bíll

Enn er nóg að gera hér í útlöndum.

Í gær var voða gott veður hjá okkur og eftir morgunmat og göngutúr um hótelsvæðið (sem er mjög stórt og inniheldur m.a. golfvöll) ákváðum við að skella okkur í sund með krakkana.  Þetta var voða næs, krakkarnir fegnir að fá að leika sér aðeins og komast út af hótelherberginu.  Þannig að þau hömuðust þarna í einhverja tvo tíma og léku sér á leikvellinum þarna við hliðina á.  

Eftir hádegi dróg fyrir sólu og þá fórum við aðeins inn.  Rúmlega hádegi var svo komið með bílaleigubílinn sem við pöntuðum til okkar og því skelltum við okkur í smá bíltúr.  Það gékk vonum framar að keyra hér, en hér keyra menn öfugum megin á vegarhelmingnum og stýrið þar af leiðandi hægra megin í bílnum.  Það tekur smá tíma að venjast þessu, en ég finn að þetta er ekki næstum eins skrýtið núna og þegar við komum hingað fyrst.  Ég hef nú svo sem ekki keyrt neitt sjálf, Óli hefur séð um það, en ég kvíði ekki eins mikið fyrir því og ég gerði áður en ég fór út.  Tók sko alveg nett panikkast þegar ég fattaði þetta (Erla vinkona getur sko staðfest það...)  Ekki það að liðið hérna er alveg crazy í umferðinni og virðir umferðarreglurnar svona aðallega þegar það hentar því, það eru mótorhjól út um allt sem keyra eins og brjálæðingar, allir svína fyrir alla og það virðist vera svo að sá frekasti fái sínu framgengt.  En þetta venst eins og allt annað.  Maður þarf bara að vera svolítið frekur sjálfur, það virðist virka best.

Í dag fórum við svo að skoða íbúðir í Riana Green, en þar eru eiginlega allir Íslendingarnir og fleiri sem eru að vinna hjá Atlanta.  Skoðuðum mjög margar íbúðir.  Hittum einmitt annan Íslending, Varða, sem er líka að flytja út og var hann að skoða íbúðirnar með okkur.  Á leiðinni út hittum við svo annan Íslending, Melissu, sem býr þarna og enduðum í kaffi hjá henni.  Til hennar kom svo Elin sem er kona norsks kapteins hjá Atlanta.  Enduðum því á því að vera leeeengi í kaffi og kjafta svolítið.  Krakkarnir hittu svo krakkana þeirra og þetta var allt voða næs.  Það var voða gaman að sjá að það er svolítið líf þarna, fullt af öðrum krökkum fyrir okkar krakka og bara almennt gott hjóð í liðinu.  Melissa benti okkur svo á annan agent sem er að díla með íbúðir þarna og við fórum og kíktum á eina íbúð til viðbótar.  Okkur leist best á hana og vonum að við getum fengið hana.  Værum samt til í að geta málað hana og gert sitthvað við hana og ætlaði Carol (seinni agentinn) að heyra í eigendunum varðandi það.  Eina er að hún er svolítið dýrari en ef við látum Atlanta sjá alveg um þetta fyrir okkur og spurning hvort við þurfum þá að sjá um þetta sjálf eða hvað.  Þetta ræðst allt á næstu dögum.  Þessi íbúð sem við erum hrifnust af er með 3 svefnherbergi, mjööög stóra stofu/borðstofu/hol, stór eldhús með þvottahúsi/búri innaf, 3 baðherbergjum og sólstofu/aukaherbergi sem bíður eftir því að fá gesti í sig ;)

Jæja ég ætla bara að hafa þetta stutt í dag...

Rósa

 

 


Nóg að gera svona í upphafi...

Jæja þá fara að vera komnir tveir sólarhringar síðan við lentum hérna í Kuala Lumpur.

So far, so good.  

Ég sit hérna við gluggann í herberginu okkar og horfi út á rigninguna.  Það RIGNIR sko í Malasíu!  Það er rigningatímabil hérna úti og þá koma af og til svona "skúrir" ef það er hægt að kalla það því nafni, því það er eins og það sér helt úr fötu hérna.  Hérna eru sem sagt bara tvær árstíðir, rigningatímabil og sumar!  Það var svo sem fínasta veður hér fyrr í dag, tæplega 30 gráður en frekar skýjað en nú hellirignir sem sagt.  Samkvæmt bílstjóranum sem við vorum með í morgun er rigningatímabilið ca frá ágúst/september og fram í desember (og jafnvel rúmlega það) en svo er bara sól Wink

Fórum í gær og kíktum á skóla fyrir krakkana.  Okkur leist mjög vel á skólann.  Rosaflott aðstaða, en rosalangt í burtu.  Það þarf að keyra í 30-50 mín (fer eftir umferðarþunga) hvora leið.  Smá munur frá því að vera 2 mínútur að labba í Snælandsskóla!  Við fórum svo aftur í dag og þá fóru krakkarnir í skriflegt inntökupróf.  Já Sonja Margrét fór í skriflegt inntökupróf á ensku!  Hún var nú reyndar frekar lokuð og vildi lítið sem ekkert segja en Sigurður talaði nú eitthvað (viðtal við skólastjórann eftir prófið)  Þeir sem þekkja til Sigurðar vita að hann er mjööög mikill keppnismaður og hann greyið hálf brotnaði niður og grét smá.  Honum hefur alltaf gengið mjög vel í skóla en það fór verulega í hann að skilja ekki allt og honum fannst hann alls ekki vera að standa sig Frown  

Sigurði var ráðlagt að fara beint inn á 3 ár en þau vildu að Sonja Margrét færi í n.k. forskóla fyrir 1 ár til að koma henni inn í enskuna.  Við vorum mjög sátt við það þar til við fórum að skoða bækurnar sem við áttum að kaupa fyrir þau.  OK hún þarf að komast inn í enskuna, en allt hitt er mjög basic og eitthvað sem ég veit að hún kann alveg.  Þar fyrir utan þarf forskólinn að taka kúrs í Malay og Mandarínsku og það er eitthvað sem ég held að sé bara til að flækja hlutina fyrir henni.  Ætlum að heyra betur í liðinu í skólanum og athuga hvort hún megi fara upp eða hvort hún mætti þá alla vega fara upp um áramótin þegar hún er komin betur inn í enskuna.  Það gæti auðvitað verið gott fyrir hana að fara rólega af stað, nóg er nú að gerast hjá þessum elskum, en ég vil ekki að hún sé endalaust að gera eitthvað sem hún kann nú þegar.  Bækurnar hjá Sigurði lofa hins vegar góðu og ég held að hann muni hafa nóg að gera, hann mun alla vega ekki geta kvartað yfir því að það sé of létt í skólanum þennan veturinn.  Hann þarf auðvitað að komast inn í enskuna og það fljótt því það er margt sem hann fer í og allt námsefni á ensku.  Þetta er auðvitað stærðfræði, enska (málfræði, bókmenntir o.s.frv.), landafræði, saga, franska, vísindi (líffræði, efnafræði, eðlisfræði), listir (allir læra á eitt hljóðfæri að eigin vali, myndmennt o.s.frv.), íþróttir og sund og eitthvað fleira.  Þetta kemur allt betur í ljós á næstu dögum.  Við gerum ráð fyrir að þau byrji á fimmtudaginn næsta í skólanum því þá er Óli ekki að vinna, en við viljum geta farið bæði með þeim svona fyrsta daginn.  Þau eru smá smeik skiljanlega (sérstaklega Sonja Margrét sem vill bara fara heim til Íslands) en ég held þau séu líka smá spennt/forvitin.  Fórum og keyptum sem sagt bækurnar fyrir þau áðan (ekkert smá magn af bókum, fyrir utan skólabækurnar er Sigurður t.d. með einhverjar 20 stílabækur, reikningsbækur og eitthvað fleira) og skólabúning.  Sigurður á að vera í ljósgulri skyrtu og beige lituðum stuttbuxum og Sonja Margrét í ljósgulri skyrtu og gul/hvít köflóttum skokk.  í leikfimi er svo líka skólabúningur, hvítar stuttbuxur og stuttermabolir í ákveðnum lit, þau áttu bæði að vera í grænum bolum.  Allir verða svo að vera í hvítum sokkum og hvítum skóm. 

Erum annars búin að sjá tiltölulega lítið nema leiðina í skólann og til baka (búin að keyra tvisvar þangað)  Fórum líka í eitthvað mall í gær sem er aðeins í burtu frá hótelinu.  Rosa flott mall og fullt af búðum sem maður þarf endilega að skoða við tækifæri Wink  Í gær vorum við aðallega í því að redda hlutum sem okkur vantar, frelsiskorti/símanúmeri hérna úti, smá snarli, hreinlætisvörum og þess háttar.  Svo fjárfestum við líka í GPS tæki.  Held það sé algerlega nauðsynlegt ef við ætlum að keyra eitthvað hérna, þetta er svolítið ruglingslegt gatnakerfið hérna, sérstaklega svona til að byrja með þegar maður er ekki alveg kominn inn í þetta.  

Fórum svo áðan og skoðuðum eina íbúð hérna rétt hjá hótelinu.  Þetta er einhver complex þar sem íslendingarnir voru áður fyrr.  Styttra á hótelið (þar sem skrifstofan er) og á flugvöllinn, en af hinum staðnum sem við erum svolítið spennt fyrir.  Þar eru víst allir íslendingarnir, eitthvað af krökkum (sem eru í sama skólan og krakkarnir) og meira um að vera.  Komumst vonandi að skoða eitthvað þar á morgun.  Íbúðin sem við skoðuðum áðan var alveg ágæt, svolítið "tómleg" (lítið af húsgögnum og þau ekkert spes) en hún var mjööög rúmgóð.  3 fín svefnherbergi, þar af risahjónasvíta með sér baði, sérherbergi fyrir húshjálpina með sérbaði fyrir hana, annað klósett, þvottahús, stórt eldhús og stór borðsstofa og stofa.  Hinar íbúðirnar eru víst eitthvað meira "modern" en við sjáum aðeins til með hvað við gerum í þessum málum.

Annars höfum við verið ansi löt.  Ég er í fyrsta skipti á ævinni að upplifa að tímamismunurinn sé að fara í mig og það sama á við aðra fjölskyldumeðlimi.  Klukkan er núna rúmlega 6 og ég er búin að vera að sofna síðan kl. 3 í allan dag.  Ætlum að gera allt til að halda okkur vakandi í dag svo við komum þessu í lag.  Í gær lögðum við okkur t.d.  (ég sem legg mig eiginlega aldrei) og fórum svo alltof seint að sofa og vöknuðum snemma til að vera mætt i skólann fyrir kl. 9.  

Ég ætla að láta þetta nægja í bili.  Læt heyra í mér fljótlega aftur,

Geisp....Rósa þreytta 


Komin til Kuala Lumpur

Jæja þá erum við fjölskyldan komin til Kuala Lumpur og ég get farið að skrifa aftur hingað inn.

Síðustu dagarnir áður en við fórum út voru frekar crazy...get ekki sagt annað.  

Óli kom heim á fimmtudaginn fyrir tæpum tveimur vikum (10 dögum áður en við fórum út) og strax það sama kvöld héldum við upp á afmælið hennar Sonju Margrétar.  Skvísan veður ekki 6 ára fyrr en núna í lok september, en hún varð að fá smá veislu með ættingjum áður en hún fór út.  Þetta árið var þó bara nánustu fjölskyldu boðið, ekkert vinaafmæli eða neitt svoleiðis.  Krakkinn fékk fullt af ótrúlega flottum gjöfum og var í sjöunda himni með kvöldið.

Kvöldið eftir vorum við Óli svo með kveðjupartý fyrir vini okkar.  Það var búið að safnast upp dágott safn af áfengi sem þurfti helst að klára fyrir brottflutning og því hóuðum við í vini okkar og báðum þá að aðstoða okkur.  Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og við vorum þvílíkt glöð með það að fá að hitta svona marga og kveðja áður en við fórum út, takk kærlega fyrir okkur þið sem mættuð.  

Dagarnir þar á snérust aðallega um að pakka niður og koma öllu fyrir.  Við náðum að koma fullt af dóti til vina okkar sem ætla að "passa" það þangað til við komum aftur, losuðum okkur við eitthvað, leigðum geymslu fyrir stóru hlutina, fengum að geyma dót í Grindavík hjá Birgi hennar Svövu og erum svo með óteljandi kassa og dót niðri í Víðigrund hjá m+p sem voru svo yndisleg að losa heilt herbergi fyrir okkur og það munar sko um minna!

Síðasta vika var líka merkileg fyrir krakkana en þá byrjaði skólinn.  Sigurður fór í 3. bekk og hitti þar alla vini sína og hana Sirrý sína sem honum þykir mjög vænt um.  Sonja Margrét fékk svo að byrja í 6 ára bekk í Snælandsskóla og var ekkert smá ánægð með það.  Hún fór í 1.-D hjá henni Dóru og var í bekk með vinkonum sínum af leikskólanum, þeim Emmu Sól, Júlíu og Maríu Lenu.  Hún fór auðvitað ekki nema heila 4 daga í skólann, það var vel þess virði að leyfa henni að byrja, hún alveg ljómaði þessi elska þegar hún var orðin skólastelpa og stækkaði auðvitað fullt.

Sigurður fékk svo að fara í veiðiferð með pabba sínum, afa, langafa og fleirum á þriðjudag og miðvikudag.  Hann langaði svo að fá að fara vestur á Borgir áður en við færum út að ég hleypti þeim feðgum þangað, þó svo það væri yfirdrifið nóg að gera við pakka og ganga frá heima.

Einhvern vegin tókst okkur svo að klára að pakka niður nokkuð tímanlega.  Á tímabili var ég engan vegin að sjá hvernig þetta ætti að ganga upp en þetta virðist alltaf reddast einhvern vegin.  Ég ætlaði að reyna að skila af mér í hádeginu á laugardeginum, því ég vissi að þau sem voru að koma í húsið áttu að skila sinni af sér um/fyrir 1. september, en við náðum ekki að skila fyrr en á laugardagskvöldið.  Við vorum rosalega heppin að fá mömmur okkar til að koma og hjálpa okkur að þrífa og ég veit hreinlega ekki hvernig við hefðum farið að án þeirra...takk og knús til ykkar!

Á laugardagskvöldið "flutti" ég svo aftur heim til mömmu og pabba Wink  með alla fjölskylduna með mér.  Við fengum rosa fínan mat á laugardagskvöldið, jólamatur í ágústlok og var öll fjölskyldan mætt, m+p, Begga sys og fjölskylda og Steinka litla sys.  Það þurfti reyndar að bíða svolítið eftir okkur, við afhentum íbúðina rétt fyrir kl. 21 og skelltum okkur svo í sturtu og maturinn var því í seinni kantinum.  En hann var góður og félagsskapurinn enn betri.  

Við sváfum vel í svítunni sem mamma var búin að útbúa fyrir okkur (alltaf gott að vera á Hótel Mamma...) og vorum voða glöð að geta haft Ísabellu hjá okkur.  Sunnudagurinn var svo frekar bissí.  Eftir geggjaðan brunch í Víðigrundinni fórum við í bíltúr og kvöddum alla.  Fyrst fórum við til ömmu og afa í Sóleyjarrima.  Því næst fórum við til Beggu systur sem var búin að baka skúffuköku fyrir okkur.  Steinunn var líka þar og þetta var góður tími en ógó erfiður.  Ég kveið einn mest fyrir því að kveðja systur mína og það var alveg jafnerfitt og ég hafði ímyndað mér.  Það féllu því ófá tárin þar.  Alveg eins og það verður ómetanlegt fyrir okkur að eiga þennan tíma saman að þá sakna ég fjölskyldunnar strax alveg hrikalega mikið.  Ég er frekar mikð háð fjölskyldunni minni og þetta er þess vegna dálítið erfitt.  Ég á eftir að sakna þess að geta ekki talað við og hitt systur mínar og Svövu mína þegar ég vil og það er svolítið erfitt að hugsa til þess að Lúkas og Adam eiga líklega ekki eftir að þekkja okkur þegar við komum til baka.  

Þegar við vorum búin hjá Beggu systir og búin að grenja alla leiðina niður í bæ, fórum við til ömmu Boggu.  Þar hittum við líka fyrir Magga og Maríu Rakel sem voru í heimsókn hjá ömmu.  Gæddum okkur á kjötsúpu sem var æðisleg.  Á eftir að sakna þess að geta ekki fengið íslenska kjötsúpu og saltkjöt og baunir, finnst það alveg hrikalega gott.  Á leiðinni frá ömmu kíktum við á Birgi Val og fjölskyldu.  Knúsuðum þau og drifum okkur svo til Svövu ömmu.  Knúsuðum hana og drifum okkur svo í mat til Sonju.  Enn einn veislumaturinn beið okkar þar, svínabógur með öllu tilheyrandi.  Eftir matinn léku krakkarnir sér aðeins og svo þurfti að kveðja alla, Sonju, Svövu, Gabríelu, Belindu og Adam Berg.  Það er erfitt að fara svona frá þeim, svona þegar þau eru nýkomin til baka frá Edinborg.  Alltof langur tími án þeirra...  Að lokum renndum við við hjá Erlu og Eggerti og kvöddum þau og krakkana.  Erla lofaði að byggja eins og eitt hús fyrir mig á meðan ég væri úti.  Eins gott að hún standi við það, hehe...

Heima í Víðigrund fór ég svo í það að klára að pakka niður og ganga frá en Óli þurfti að fara upp í vinnu og klára eitthvað.  Krakkarnir notuðu tíman og knúsuðu hana Ísabellu sína og féllu ófá tárin þar.  Steinunn systir sem er svo yndisleg að ætla passa hana fyrir okkur bjallaði svo í okkur og sagðist geta vaknað um nóttina og komið og sótt hana í stað þess að sækja hana þarna um kvöldið og þáðum við það.  Krakkarnir (og ég...) notuðum því tímann vel og knúsuðum hana í bak og fyrir.

Eftir kannski tveggja tíma svefn vöknuðum við um 4 og þá var bara komið að því að leggja í hann.  Leigubíllinn kom upp úr 5 og sótti okkur.  Kvöddum m+p, Steinunni sys og Ísabellu.  Krakkarnir voru miður sín yfir Ísabellu og ég frekar lítil í mér þegar ég kvaddi mömmu og pabba og Steinunni systir.  Það féllu því nokkur tár í viðbót þarna um morguninn.  Ég hafði þó ferðina út í Keflavík til að ná mér og leit held ég nokkuð eðlilega út þar, alla vega var ekki mikið verið að glápa á mig...

Það gékk vel að tékka inn, þrátt fyrir að við værum með ríflegan farangur.  Tékkuðum okkur inn í kössunum til að reyna losna við að borga yfirvigt og það gékk upp.  Fórum svo upp og borðuðum smá og svo fengu krakkarnir að versla smá enda áttu þau smá pening sem þau höfðu fengið að gjöf frá ömmu, öfum, langöfum og langömmum.  

Flugið til London gékk vel og þar tékkuðum við okkur inn á hótel yfir daginn, enda lentum við á hádegi en áttum ekki að fara aftur í loftið fyrr en um kl. 22.  Fengum okkur að borða og lögðum okkur aðeins áður en við fórum aftur út á völl.  

Það gékk vel að tékka okkur inn á Heathrow.  Þurftum ekki að borga neina yfirvigt en fengum reyndar ekki öll sæti saman.  Óli er með ID miða sem þýðir að hann á að vera upgradeaður á bissa.  Við hin vorum bara í monkey class.  Óli reyndi að fá að fara niður til okkar, en vélin var full og því var hann uppi (flugum í bumbu) en við niðri.  Við krakkarnir fengum öll sæti saman og höfðum það fínt.  Þau náðu sem betur fer að sofa svolítð, enda var flugið um 12 tímar.  Ég á hins vega voða erfitt með að sofna í flugvél, en náði samt örugglega um 2 tíma svefni.

Við lentum svo í gær um kl. 5 að staðartíma, 1 1/2 sólarhring eftir að við lögðum af stað.  Eftir smá klikk með bíl (það gleymdist að senda bíl eftir okkur) fengum við taxa sem keyrði okkur á hótelið okkar.  Fengum tvö aðliggjandi herbergi sem eru svona allt í lagi.  Allt mjög hreint, en aðeins slitið.  Rétt náðum að kíkja í kvöldmat í gærkvöldi áður en allt lokaði og hentum okkur svo í bólið.  Ég vaknaði svo um 4 og gat ekki sofið lengur.  Þessi tímamismunur og rugl allt á síðustu sólarhringum er eitthvað aðeins að fara í okkur.  Ég sit þess vegna hérna núna og pikka á tölvuna og bíð eftir því að klukkan verði 6 og við getum farið í morgunmat!  

Erum voða lítð búin að skoða hótelið, hvað þá eitthvað annað hérna og ég veit því eiginlega ekki hvað mér finnst um Kuala Lumpur enn sem komið er.  Ætlum að fara í heimsókn í einn skóla í dag, kíkja aðeins í búðir og versla helstu nauðsynjar og skoða okkur betur um og reyna átta okkur á hlutunum í dag.  

Læt þetta duga í bili.

Sakna ykkar allra...

Rósa og co 

 


Málin að skýrast

Jæja þá er það farið að skýrast aðeins hvernig þetta verður.

Eins og staðan er núna kemur Óli heim 21. ágúst og svo förum við öll út 1. september, það er sem sagt farið að styttast all svakalega í þetta Undecided

Ég tók nett stress/panikkast í gærkvöldi þegar þetta kom allt í ljós.  Fram að þessu er þetta aðallega búið að vera spennandi og öllum hefur hlakkað til að geta loksins verið öll eitthvað meira saman en við höfum verið að undanförnu.  Auðvitað hef ég verið smá stressuð, aðallega út af skólanum hjá krökkunum og svona (finnst mjög vont að hafa hlutina svona í lausu lofti) en samt aðallega verið spennt.

En í gærkvöldi brotnaði ég algjörlega niður.  Fór að hugsa um alla sem ég skil eftir, foreldra mína, systur og nána vini.  Óli verður líka að vinna mjög mikið fyrstu dagana eftir að við komum út og ég því mikið ein með krakkana á stað þar sem ég þekki engan og er ekki nógu örugg að fara ein með þau og gera eitthvað skemmtilegt með þeim.  Þannig að mér fannst þetta eitthvað voðalega erfitt allt og óyfirstíganlegt í gær og það féllu ófá tárin.  Ég var þá einmitt tiltölulega nýbúin að tala við Beggu systir og tilhugsunin að ég geti ekki bjallað í hana hvenær sem er, hitt hana og litlu frændur mína og fleira í þeim túr var bara of mikið fyrir mig.  

Ég var sem betur fer að tala við Óla á Skype þegar þetta gerðist og við gátum rætt málin aðeins fram og aftur.  Ég veit að þetta verður erfitt til að byrja með en ég veit líka að þetta verður fínt þegar við erum aðeins komin inn í alla hluti, farin að kynnast fólki og svona og þetta verður svakalegt ævintýri sem við eigum eftir að búa að það sem eftir er.  En í augnablikinu fókusa ég aðeins of mikið á það hvað þetta verður erfitt svona til að byrja með.  Ég þarf sem sagt að fara hætta því og einbeita mér að því sem ég fæ í staðin, sem er meiri tími fyrir okkur með Óla og ómetanleg reynsla fyrir okkur og krakkana.

En nú þarf ég sem sagt að fara spýta í lófana og henda mér í það að fara pakka.  Óli kemur það seint heim að þetta lendir að mestu leyti á mér og þetta gerist því miður ekki að sjálfu sér.  Svo get ég vonandi fundið tíma til að hitta og kveðja alla mína góðu fjölskyldu og vini.

Rósa, með tárin í augunum... 


Pakka, pakka og pakka aðeins meir

Jebb það er það sem allt gengur út á þessa dagana, að pakka!Það mætti svo sem alveg ganga betur, en þett smá mjakast allt saman.

Óli kom óvænt heim um daginn og stoppaði í viku. Pökkuðum svolitlu niður þá og fórum með niður í Víðigrund til mömmu og pabba. Þau voru svo yndisleg að bjóðast til að geyma fyrir okkur slatta af kössum, hliðruðu til í herberginu sem krakkarnir hafa notað sem leikherbergi og við ættum að koma fullt af kössum þangað.Óli gékk líka í ýmsa hluti sem þurfti að ganga frá tímanlega fyrir brottför, eins og að sækja um að við værum áfram í almannatryggingakerfinu og ýmislegt fleira.

En svo fór hann bara út og eftir sit ég og þarf að sjá um það að miklu leyti að pakka ein niður. Og það er sko slatti sem þarf að pakka og mér finnst að ég þurfi helst að vera alltaf að, þannig að þegar ég sest niður og geri eitthvað annað er ég með stanslaust samviskubit yfir því að vera ekki að gera neitt!

Þetta er samt að ganga ágætlega og fullt af leiðinlegum hlutum sem er búið að koma frá sér, eins og að fara í gegnum baðskápana, óflokkuðu pappírana á tölvuborðinu, pakka niður öllu úr sjónvarpsherberginu (allar sparibækur, video og dvd hulstur komin í kassa og búið að setja allar dvd í eina tösku)  Erum líka búin að fara í gegnum hillurnar í svefnherberginu (bækur o.fl.) og meira að segja búin að koma nokkrum hillum til Beggu sem er að gera fínt fyrir strákana sína og útbúa ný herbergi fyrir þá, þannig að hillurnar komu að góðum notum þar.  Ég var svo að byrja að fara í gegnum eldhúsið en það á eftir að taka slatta tíma.  Er búin að henda tæplega tveimur svörtum pokum af alls konar drasli og er voða stolt af mér (á mjöööög erfitt með að henda hlutum) og pakka niður í nokkra kassa.  Er svona að dúlla mér við að taka einn og einn skáp í einu.  

Eins og staðan er núna kemur Óli líklega heim 21. ágúst, við höldum vonandi partý 22. ágúst og verðum svo rosadugleg að pakka laugardag og sunnudag og jafnvel mánudag og vonandi getum við svo farið vestur eitthvað í þeirri viku.  En ef af því verður vil ég helst vera búin með flest allt.  Þannig að ég þarf að vera rosadugleg að pakka á næstunni ef það á að ganga eftir!

Svo er stefnan sett á að við förum út strax um mánaðarmótin.  Samningurinn sem Atlanta gerði byrjar strax 1. september og þeir væru mjög ánægðir er við færum sem fyrst út.  Þannig að það styttist ansi hratt í að við kveðjum skerið :S

Jæja ætla að láta þetta duga í kvöld.  Ætla leyfa mér að horfa á eins og einn þátt í tölvunni áður en ég fer að sofa, jebb bara lúxus á minni í kvöld ;)

Rósa, sem fór í gegnum nammiskápinn áðan og henti ótrúlegu magni af alls kyns óhollustu! 


Undirbúningurinn heldur áfram

Jæja svo sem ekki margt gerst síðan síðast, en mig langaði samt að punkta aðeins niður það sem við höfum verið að gera síðustu daga.

Það tók ekki langan tíma að leigja íbúðina út. Skv. leigumiðlaranum ætlar sá sem skoðaði hana fyrstur að taka hana. Ég held að þau taki við íbúðinni/húsinu 1. september og því þurfum við líklega að fara út einhvern tíman í lok ágúst því þau þurfa að mála yfir íbúðina áður en nýja fólkið tekur við. Við þurfum eitthvað aðeins að lappa upp á eitthvað smá áður en við skilum af okkur, en það er ekki mikið. Líma 2 flísar í eldhúsinu (alltaf að losna þar því gólfið er úr timbri og hreyfist því aðeins), sparsla í öll göt svo þau geti málað beint og mála yfir veggina tvo sem ég fékk að mála í lit. Svo þurfum við að heyra í nýju leigjendunum hvort þau vilji halda einhverjum hillum sem við erum með hérna.

Það er alla vega allt í einu voða stutt í að ég þurfi að vera búin að pakka öllu niður og koma okkur út. Og mér finnst svoooo leiðinlegt að pakka, held það sé svona hér um bil það leiðinlegasta sem ég veit. Líka hálfóþægilegt að ég veit ekki alveg hvert búslóðin fer, eigum eftir að finna einhverja góða geymslu. En ég fór alla vega í fyrradag og fékk nokkra kassa hjá Erlu minni í Adams. Pakkaði niður í gær fötum sem eru þegar orðin of lítil á krakkana, eitthvað að handklæðum og sængurfatnaði (bara með eitt sett fyrir hvern og einn til skiptana) Svo þarf ég að fara vera dugleg að reyna byrja að pakka á næstu dögum. Verst bara að ég veit ekkert hvar ég á að byrja, hvað það er sem ég get alveg verið án þangað til að við förum út.

Annars eru skólamálin fyrir krakkana alveg að fara með mig þessa dagana sem og það að vera ekki búin að fá einhverjar nánari upplýsingar eins og hvaða dag við förum út og hvaða íbúð við fáum. Er eitthvað svo stressuð að krakkarnir komist ekki inn í skólann sem hinir íslensku krakkarnir eru í eða þá hvenær þau fá að byrja. Vil líka fá að vita hvenær við förum nákvæmlega upp á það hvort þau byrji í skólanum hérna heima og hvað þau verði lengi hérna, líka bara upp á að geta rætt þetta við skólann hérna heima, vil nefnilega endilega vera í góðu sambandi við hann svo ég geti haldið þeim við efnið á meðan við erum úti, vil ekki að þau missi neitt úr skólanum. Ætla að reyna ná mér í þær bækur sem þau ættu að nota hér heima áður en við förum út.

Jæja ætla að hætta í bili. Langar að fara að hitta hana Svövu mína, reyna nota tímann áður en við förum út. Finnst alveg glatað að vera búin að vera án hennar í heilt ár, bara til þess að fara sjálf út og vera þá án hennar :(  

Þetta er eitt af því erfiðasta að fara út, vera án fjölskyldunnar og vinanna, enda er ég svona frekar háð mínum nánustu og þetta verður því örugglega skrítið fyrir mig. Líka skrítið fyrir ömmur og afa að missa af barnabörnunum í allan þennan tíma og auðvitað ekki síður fyrir krakkana að geta ekki hitt þau þegar þau vilja. Vonandi geta þau kannski kíkt til okkar amk einu sinni á meðan við erum úti. En við gerum svo sem ekki ráð fyrir því að fá marga í heimsókn til okkar því þetta er nú ansi langt í burtu og ekki ókeypis að koma sér þangað niður eftir.

Bæ í bili...

Rósa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband