Hálf crazy dagur...

Hann byrjaði nú ekki vel miðvikudagurinn.  Einhvern vegin tókst mér að slökkva á vekjaraklukkunni í stað þess að snooza hana og við vöknuðum því kl. 8:02 og Sigurður átti að vera mættur í skólann kl. 8:10.  Höfum aldrei verið svona fljót að öllu.  Hann hoppaði í fötinn og gúffaði í sig jógúrt á meðan ég klæddi hann í skóna og burstaði svo tennurnar og hjálpaði honum í útifötinn.  Þegar ég leit á klukkuna stuttu eftir að hann lagði af stað í skólann var hún 8:11, þannig að ekki  tók þetta nú langan tíma.  Þá tók nú ekki betra við, prinsessan hraut uppi í rúmi og ég með hárið út um allt og rétt á brókinni og sloppnum og átti að vera mætt í foreldraviðtal úti í leikskóla kl. 8:30.  Henti mér í gallann, setti upp andlitið, skvísunni skellt hálfsofandi í fötin og út í bíl.  Var mætt svona hér um bil á réttum tíma, fjúff! 

Foreldraviðtalið gékk mjög vel.  Allt gott um skvísuna að segja.  Hún er voða dugleg og stendur við vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, tekur þátt í öllu, er óhrædd, ófeimin og vinsæl af hinum krökkunum.  Eina sem eitthvað var hægt að segja um hana var að hún er greinilegur leiðtogi í sínum hóp og á það til að vilja stjórna þeim svolítið og það er verið að reyna vinna í því að virkja hinar stelpurnar í að vera sjálfstæðari.  Upp að vissu marki er ég eiginlega bara ánægð með þetta, þ.e. svo lengi sem hún er góð við stelpurnar.  Hún fullvissaði mig um að ef eitthvað kæmi upp á eða hún yrði enn stjórnsamari myndu þær láta mig vita.  Það hefur nefnilega alltaf háð mér að vera ekki nógu ánægð með sjálfa mig og átt erfitt með að standa á mínu og þar af leiðandi látið spila svolítið með mig.  Ég er því ánægð með að hún sé sjálfstæð og flott stelpa sem standi á sínu, gangi í hluti og hafi frumkvæði.  Það eru eiginleikar sem ég vona að hún missi ekki niður, heldur læri að nota þá rétt.  Það er held ég nefnilega ótrúlega mikils virði að trúa svona á sig.

Var svona frekar dugleg í vinnunni en þurfti að fara frekar snemma heim til að sækja Sigurð og fara með hann (og mig) til læknis.  Ég er laus en aumingja Sigurður er svo slæmur að það er alveg hræðilegt.  Talaði fullt við lækninn en hann vildi halda þessari meðferð eitthvað áfram áður en við prófum eitthvað annað (bara eitt annað sem kemur til greina og það er að nota eitthvað krabbameinslyf sem er sprautað á staðinn)  Þannig að enn og aftur var fryst og eitur borið á en að þessu sinni var það haft mjög stutt á.  En þetta var mjög erfiður tími.  Sigurður er mjög sterkur, lætur aldrei vita ef það er eitthvað að, en þarna bara grét hann og kvartaði og bað lækninn að hætta og ég þurfti alveg að berjast við það að fara ekki að gráta með honum.  Vona bara að hann verði ekki slæmur í þetta skiptið.

Eftir læknisheimsóknina fékk hann kleinuhring og svo fórum við í Toys'r us og keyptum jólagjafir fyrir Lúkas, Gabríelu, Belindu og hálfa afmælisgjöf fyrir Belindu.  Þannig að núna fara allar krakkagjafirnar að verða búnar (nema fyrir Sigurðu og Sonju Margréti).  Þó svo það sé enn slatti eftir að þá hef ég samt aldrei verið jafnsnemma í þessu og núna.  Ætla svo að reyna að ná að skrifa á jólakortin um helgina.

Sóttum svo Sonju Margréti og fórum heim, enda slatti sem ég átti eftir að gera fyrir saumó sem var um kvöldið.  Kláraði að taka aðeins til, ryksugaði og fór svo í það að útbúa eitthvað gúmmelaði fyrir skvísurnar.  Bara léttur matur fyrir krakkana, skyr og brauð.  Þau fóru síðan tímanlega í bólið svo ég gæti komið mér í gírinn áður en stelpurnar mættu.

Sem fyrr var frábært að sjá þær og kjafta fullt.  Vorum voða duglega og ég, Harpa og Addý föndruðum okkur aðventukransa.  Breytti aðeins til núna og er með kransinn svona gylltan og brúnan.  Er bara frekar ánægð með hann.  Útbjó líka lítinn krans framan á hurðina, en hann er nú aðeins einfaldari.  Ég, Erla og Addý sátum fram eftir öllu og kjöftuðum eftir að hinar voru farnar.  Ég fór ekki að sofa fyrr en rúmlega 2 eftir að hafa gengið aðeins frá og skellt mér í sturtu og var því nett þreytt þegar ég vaknaði í morgun.

Jæja, læt þetta duga í bili.  Einn dagur í einu er ágætt :)

Rósa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband