Langt síðan síðast...

Ég veit...ógó langt síðan ég skrifaði síðast.

Það er reyndar alveg ástæða fyrir því. Óli kom heim í óvænta heimsókn á laugardaginn og þá var einhvern vegin ekki alveg ástæða til að skrifa hvað við værum að gera dags daglega, enda þetta sérstaklega gert fyrir hann á meðan hann er í útlöndum.

Dagarnir áður en Óli kom heim voru fínir. Reyndar var fimmtudagskvöldið með krakkana í vinnunni frekar erfitt, þau voru óvenju ergileg, örugglega bara þreytt þessar elskur og ég kom því ekki miklu í verk. Á föstudeginum var mér boðið í kaffi og á danssýningu í leikskólanum hjá Sonju Margréti. Hún var auðvitað rosa dugleg, fín og sæt. Um kvöldið var síðan síðan líklega síðasta heimabakaða pizzan fyrir jól og kósý kvöld, ótrúlega næs. Á laugardeginum var svo nóg að gera. Ég fór með krakkana í Laugardagshöllina á tónleika með Björgvini Halldórs og jólagestum hans. Ótrúlega flott og skemmtilegt og gaman að fara svona með krakkana. Þau fóru svo til Sonju og ég fór á jólahlaðborð með öllum úr vinnunni og gat tekið Óla með mér. Jebb, hann lenti sem sagt seinnipartinn og mætti óvænt í jólahlaðborðið. Það var mjög skemmtilegt þar (enda ótrúlega skemmtilegt fólk sem vinnur með mér) og jafnskemmtilegt að sækja krakkana daginn eftir en þau höfðu ekki hugmynd um að Óli væri að koma heim. Við tóku svo frábærir dagar með Óla heima. Ég var auðvitað mikið í vinnunni, en það var líka gott að þurfa ekki að redda neinni pössun á kvöldin og hafa einhvern til að kjafta við á kvöldin. Það er ótrúlegt hvað maður verður háður þessum elskum og það er eins og það vanti á mann einhvern útlim að hafa hann ekki hjá mér alla daga, alltaf.

Óli fór svo út á fimmtudagsmorguninn :( og síðan þá (og reyndar áður en hann fór út) er allt búið að vera brjálað í vinnunni og veðrið búið að vera enn brjálaðara. Ég var óvart heima á fimmtudagskvöldið eftir að hafa verið óralengi að sækja Sigurð í fimleika (það fór að snjóa og það voru bílar spólandi út um allar trissur, ótrúleg hálka og almennt umferðaröngþveiti með tilheyrandi aftanákeyrslum og skemmtilegheitum) og mér leist illa á blikuna hvað varðaði færð seinna um kvöldið þegar ég þyrfti að fara heim með elskurnar. Á föstudeginum var auðvitað bandbrjálað veður. Ég fór samviskusamlega með börnin í skólann. Þorði nú reyndar ekki að láta Sigurð labba í skólann einan og keyrði hann og fór með Sonju um leið. En veðrið hélt áfram að versna og í útvarpinu var víst búið að ráðleggja fólki að halda börnum bara heima. Ég hálffríkaði út, fannst ótrúlega óþægilegt að vita af þeim í skólanum á meðan ég væri allt annars staðar í bænum í vinnunni, vildi bara hafa þau hjá mér. En ég var líka hálfstressuð að vera keyra eitthvað ein með þau en ég gat ómögulega sleppt vinnunni núna þegar það var svona stutt til jóla. Úr varð að ég sótti krakkana í skólann og fór með pabba á hans bíl (aðeins öruggari en minn) niður í búð og þar vorum við öll saman þangað til um kvöldið þegar við fórum öll saman heim eftir lokun, sem var kl. 22. Þau voru ótrúlega dugleg þessar elskur að vera þarna með mér allan daginn. Þetta var auðvitað svolítið erfitt á tímabili, sérstaklega átti Sonja Margrét erfitt með að hlýða öllu, en í heildina gékk þetta vel.

 Leikskólajólaballið

Í morgun fórum við svo á jólaball í leikskólanum. Það var haldið úti í Snælandsskóla. Við þurftum að mæta kl. 10 því ég er í stjórninni í foreldrafélaginu og það sá um ballið. Ballið átti að byrja kl. 11 en áður þurfi að skreyta salinn o.fl. Það gékk allt saman mjög vel, fín mæting og skemmtilegur jólasveinn sem kíkti á okkur. Við þurftum svo að ganga frá og eftir það fórum við aðeins út í sjoppu og tókum diska fyrir krakkana. Fórum heim og fengum okkur hádegismat og kíktum aðeins á Transformers. Sonja kom svo og sótti krakkana en ég fór niður í vinnu. Frekar mikið að gera og ég var lítið uppi. Sótti svo krakkana til Sonju um kl. 18:30 því hún var að fara í jólahlaðborð og skuttlaði þeim til Beggu systir. Þar var svaka stuð þegar ég fór og greinilegt að Óskar sem er búinn að vera einn heima með hlaupabóluna var ýkt kátur að fá að leika við einhverja krakka. Fór aftur niður í búð. Frekar órólegt og ég hefði því alveg mátt koma meiru í verk uppi á verkstæði. Búðin var opin til kl. 22 og ég var farin af stað til Beggu eitthvað rétt fyrir 23. Sótti krakkana og drifum okkur heim. Sonja Margrét fór beint í bólið en við Sigurður stálumst til að klára Transformers. Mæ ó mæ lifnaðurinn á krökkunum þessa dagana :s Drifum okkur svo í bólið og vonuðum að jóli væri nú ekki farin framhjá okkur þó svo klukkan væri orðin svona margt.


Vikan hálfnuð

Mæ ó mæ, kominn miðvikudagur og ég er ekkert búin að blogga alla vikuna...ekki góð frammistaða!

Ekki það að það hefur svo sem ekki mikið verið í gangi hjá mér, vakna, vinna, vinna aðeins meir, sofna alltof seint... Svona hefur þetta sem sagt verið hjá mér síðustu daga. Algerlega grínlaust, það er sko ekkert spennandi í gangi hjá mér þessa dagana.

Á mánudaginn fór ég með mömmu í Echo og upp í Hvítlist. Völdum fullt af flottri vöru í Echo (mest svona ódýrari hluti, en það er svo sem það sem okkur vantar) og svo keyptum við tvö ný roð í Hvítlist í nýju armböndin sem ég hef verið að gera. Rétt náði að sækja Sonju Margréti í leikskólann og svo beint heim. Tengdó beið þar eftir mér en hún var að sækja auka bílstólana því hún ætlar að hjálpa mér fullt fram að jólum og þá er nú gott fyrir hana að hafa stóla. Biðum svo eftir Sigurði (var á fótboltaæfingu) og fórum svo niður í búð. Krakkarnir voru ósköp góðir en Sonja Margrét var nú ekki alveg á því að fara að sofa niðri í búð á fína "rúminu" sem við vorum búin að kaupa. Sigurður sofnaði hins vegar fljótlega. Hætti að vinna um kl. 22 og dreif mig og krakkana þá heim. Sonja Margrét var í svaka stuði og ætlaði sko ekki að fara að sofa strax...

Vaknað snemma og Sigurði komið í skólann. Leyfði Sonju Margréti að sofa aðeins lengur, vildi ekki alveg leggja það á starfsfólkið í leikskólanum að þurfa díla við litlu dramadrottninguna eftir aðeins of lítinn svefn. Var mætt með hana rétt fyrir kl. 10 og þá var hún svaka hress og kát :)

Vinnan ósköp venjuleg hjá mér. Fór rétt fyrir 4 og sótti krakkana og brunaði upp í Gerplu en Sonja Margrét var á æfingu. Settist niður inni í sal á meðan og þurfti að hafa mig alla við að sofna ekki. Eftir æfinguna brunuðum við svo niður í búð og það var unnið fram eftir kvöldi. Það gékk betur í kvöld hjá krökkunum að sofna. Sigurður var ósköp heimilislegur, bara rétt á brókinni og stuttermabol uppi í rúmi og það tók hann smá stund að sofna. Veit ekki alveg hvenær Sonja Margrét sofnaði (eða hvort hún gerði það yfir höfuðið, held það samt) en hún lá alla vega uppi í rúmi og hvíldist þá alla vega eitthvað. Þetta virðist því vera að koma, þau þurfa bara smá tíma til að átta sig á þessu öllu. Vann til 22:30 og þá fórum við heim. Krakkarnir beint upp í ból og mjööög fljót að sofna aftur. Kíkti aðeins á tv og talaði við ástina mína í símann. Langar sko aldrei að skella á hann :( Sakna þess ekkert smá að hafa hann ekki í kringum mig á hverjum degi og geta talað við hann þegar mig langar til.

Leyfði Sonju Margréti að sofa aðeins lengur í morgun líkt og í gær. Mætti sjálf aðeins of seint, klukkan var örugglega orðin rúmlega 10. Tókum til uppi á verkstæði og nú er allt voða fínt hjá okkur. Ætlaði að skreyta líka en komst ekki í það. Þurfti að klára einhverja verndarengla sem Einar ætlaði að vera búinn með og svo var bara allt hálfkreisí, nóg að gera þessa dagana sko. Þurfti ekki að fara úr vinnunni í dag því Sonja var svo yndisleg að sækja krakkana fyrir mig og fara með til sín. Vann í staðin ekki eins lengi. Ætlaði að vera vinna til kl. 21, en ég kláraði ákveðið verkefni kl. 20:30 þannig að ég ákvað bara að drífa mig að sækja krakkana þá, það tók því eiginlega ekki að vera byrja á nýju verkefni.

Æðislegt að komast heim á næstu eðlilegum tíma. Henti krökkunum í örstutt bað, enda hefur verið frekar erfitt að finna tíma fyrir bað þegar þau eru greyin með mér í vinnunni fram á miðja nótt hér um bil. Gékk aðeins frá, tók út úr og setti í uppþvottavél og ýmislegt svoleiðis. Mér líður miklu betur að vera bara búin að ganga frá flestum hlutum. Það þyrfti að ryksuga hér og skúra en þetta er samt miklu, miklu betra. Er búin að henda í þvottavél og er að fara að setjast niður og brjóta saman þvott og ætla að horfa á einhvern góðan þátt í tv-inu á meðan.

Jæja ætla að reyna fara að drífa mig að brjóta saman þvott svo ég fari ekki alltof seint að sofa...


Rólegur sunnudagur

Fékk að sofa til kl. rúmlega 10 og það var æði. Meira að segja krakkarnir vöknuðu seint. Þau opnuðu auðvitað dagatalið sitt og fóru svo að horfa á tv-ið en ég lá bara í rólegheitunum upp í rúmi í tæpan klukkutíma í viðbót. Náði reyndar ekki að sofna en gat samt slakað á.

Dunduðum okkur svo eitthvað smá. Fórum svo í það að gera Sonju Margréti tilbúna (og okkur Sigurð auðvitað líka) en henni var boðið í afmæli hjá Emmu Sól klukkan 2. Rúmlega 1 voru allir svona hér um bil tilbúnir og við ætluðum að skjótast í Smáralindina og versla gjöf handa henni. En þá fannst bíllykillinn hvergi og við eyddum drjúgum tíma í að leita að honum. Við vorum búin að leita að honum alls staðar og orðin frekar despó en fundum hann að lokum í úlpuvasanum mínum. Ég hafði farið út í bíl í gærkvöldi að sækja það sem við höfðum föndrað um daginn og farið sem sagt út í úlpunni (og ekki þeirri sem ég hef verið að nota að undanförnu) og skellt lyklinum í vasann en ekki gengið frá honum. Við vorum því komin í Smáralindina rétt um eða rúmlega 9 og áttum þá eftir að versla. Höfðum þetta bara einfalt, fórum í Adams, keyptum náttkjól, Erla skellti honum í gjafakassa og út aftur. Sonja Margrét var svo mætt rétt fyrir hálf þrjú í afmælið.

Við Sigurður fórum út í búð og keyptum okkur kók (hann kók zero en ég birgði mig upp af lítilli kók í gleri sem var á tilboði í dag, 6 í pakka á 399, elska litla kók!) Fórum svo heim, hituðum upp pizzuna síðan í gær og borðuðum hana á meðan við horfðum á tv (er að reyna ná að klára alla þættina sem ég er búin að taka upp í vikunni, hehe) Settum svo upp rándýru seríuna í herbergið hans Sigurðar og er hann allsæll með hana (eins gott sko) og hún blikkar og gerir allar kúnstir í glugganum hans ;) Sótti svo Sonju Margréti í afmælið og kom aðeins heim áður en við fórum í mat til tengdó. Ryksugaði og skellti í eina vél svona rétt áður en við fórum og þá leið mér miklu betur og fannst ég hafa gert eitthvað gagn í dag. Ótrúlegt hvað maður getur aldrei slakað á, var búin að vera með massa samviskubit yfir því að hafa ekki nýtt daginn betur og verið á fullu að snurfusa heimilið fyrst ég var ekki í (hinni) vinnunni.

Fórum svo sem sagt í mat og það var æðislegt eins og venjulega. Dunduðum okkur þar aðeins, krakkarnir að spila við afa og kíkja í tölvuna og ég ræddi aðeins við Sonju um desember en hún ætlar að hjálpa mér fullt með krakkana, veit ekki hvernig ég færi að án hennar.

Erum núna komin heim og ég er að klára þvo það sem krakkarnir þurfa að taka með sér í skólana á morgun og er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að brjóta saman þvott, það er svona á mörkunum að ég nenni því... Krakkarnir eru komnir upp í rúm en mér heyrist á öllu að þau séu ekki sofnuð, ótrúlegt hvað litla skessan getur endalaust vakað þegar það er komið upp í rúm :s

Jæja ætla að reyna fara gera eitthvað gagn og hætta að hanga í tölvunni...


Ágætis laugardagur

Vaknað snemma í morgun eins og alla aðra morgna vikunnar. Áttum að vera mætt upp í Kór kl. 8:45. Vorum reyndar svolítið sein, mætt rúmlega 9, en mér til varnaðar var ég búin að láta þjálfarann vita að við værum sein. En Sigurður missti ekki af neinu svo þetta kom nú ekki mikið að sök. Þetta var sem sagt æfingaleikur á milli strákanna í HK sem æfa í Fagralundi/Snælandsskóla og þeirra sem æfa uppi í Kór. Þetta var mjög fínt. Frábær aðstaða þarna upp frá og Sigurður stóð sig vel. Hann er orðin mun duglegri að gefa á aðra en er enn sem fyrr mjög framliggjandi, óháð því hvaða stöðu hann spilar ;) Endar er hann venjulega bara látinn spila frammi, hehe.

Æfingaleikurinn var búinn rúmlega 10 og þá fórum við beint upp í Snælandsskóla. Þar var jólaföndur í dag og þar sem ég er í foreldrafélaginu var ég að vinna þar. Ég var í tréhópnum og voru krakkarnir með mér þar. Þau voru voða dugleg að mála alls konar dót, voða fín box, myndaramma og fleira. Þegar ég var búin á minni vakt um kl. 13 kíktum við aðeins á glerið og máluðum öll einn hlut þar og svo fórum við bara heim og létum þetta nægja í þetta skiptið. Komum við í sjoppunni, keyptum okkur franskar og fórum svo heim, borðuðum þær, horfðum aðeins á tv og höfðum það næs. Ég leyfði mér svo að leggja mig aðeins, þvílíkur lúxus, geggjað bara! Steinunn sys kíkti svo aðeins við og fékk lánaðar sprutugræjur í kökugerð.

Í kvöld útbjuggum við svo heimagerða pizzu. Erum nú venjulega með svoleiðis á föstudögum, en þar sem ekki var tími til að standa í svoleiðis í gær var ég búin að lofa þeim að við myndum útbúa svoleiðis í kvöld. Horfðum svo á Laugardagslögin og fengu þau að velja eitt lag (sameiginlega) og kjósa það. Þau voru síðan voða glöð þegar það lag vann. Þau voru svo send í bólið og eru vonandi sofnuð núna. Ég ætla kíkja aðeins á imbann en svo ætla ég að reyna fara tímanlega í bólið og sofa svo út.Hlakka ýkt til að þurfa ekki að vakna á einhverjum ákveðnum tíma í fyrramálið. Sérstaklega af því að þetta verður örugglega síðasti dagurinn sem ég verð í fríi í mánuðinum. Þannig að ég ætla að reyna að nýta hann vel (til að slaka á, hehe)


Allt að fara á fullt

Það er búið að vera frekar mikið að gera síðustu tvo daga. Í gær var það auðvitað vinnan. Ég fór svo og sótti krakkana. Var reyndar óvart svolítið tímanlega í því og notaði því tímann áður en ég sótti þau til að sækja nýtt debetkort í stað þess rann út um síðustu mánaðarmót og til að sækja það dót sem ég var búin að taka frá hjá Erlu. Sótti svo krakkana og skaust með þeim heim til að taka til eitthvað dót fyrir þau að taka með niður í vinnu til mín. Vorum komin þangað rúmlega 5. Nóg að gera hjá pabba og ég var því niðri eitthvað fram yfir 6. Krakkarnir voru voða góðir, lærðu, horfðu aðeins á sjónvarpið (dvd) og svo lögðu þau sig í fína "rúmið" sem við keyptum í Ikea. Þau sofnuðu nú reyndar ekki en náðu alla vega að hvíla sig aðeins. Þetta var auðvitað eitthvað nýtt og spennandi og því kannski hægt að ætlast til þess af þeim svona fyrsta kvöldið. Vona samt að þau læri það smám saman svo ég geti náð að vinna eitthvað á kvöldin. Við fórum heim um kl. 10 og þá voru þau orðin vel þreytt þrátt fyrir að hafa verið uppi í rúmi í rúma klst. Sjáum til hvernig þetta gengur næst. Horfði aðeins á sjónvarpið en var svo þreytt að ég meikaði bara einn þátt.

Vaknaði samt ógó þreytt í morgun. Óþolandi að vera endalaust svona þreyttur. Sigurður í skólann og svo tókum við mæðgur okkur til. Kom við í bakaríinu á leiðinni niður eftir. Var síðan frekar dugleg í dag, en ótrúlega þreytt. Dreif mig svo heim. Sótti Sonju Margréti og svo Sigurð. Þá uppgötvaðist að ég hafði gleymt að honum var boðið í afmæli sem átti að byrja eftir 15 mín! Heim að útbúa afmæliskort og svo var 500 krónum stungið inn í það. Sonja Margrét var búin að fá leyfi til að fara í heimsókn til Júlíu og það var því keyrt beint inn í Kópavog með hana. Það passaði að ég átti þá akkúrat að vera mætt út í skóla til að setja upp jólaföndrið sem er á vegum foreldrafélagsins á morgun. Var þar til ca 18:15 og þá brunaði ég upp í Kringlu til að sækja Sigurð í afmælið sem átti að vera búið kl. 18:30. Kíktum í Zöru og ég fékk loks peysu utan yfir jólakjólinn hennar Sonju Margrétar og svo keypti ég jakka fyrir Sigurð sem honum langar svo í og fær frá einhverjum í jólagjöf. Þá var klukkan orðin það margt að ég átti að vera búin að sækja Sonju Margréti og allt of mikið til að fara að byrja að útbúa heimatilbúna pizzu eins og við gerum venjulega á föstudögum. Það var því valin auðvelda leiðin í þetta skiptið og við kipptum McDonalds með okkur á leiðinni heim. Sonja Margrét pikkuð upp og svo heim að borða. Smá tv fyrir krakkana og svo í bólið.

Á morgun verður svo aftur mjög mikið að gera. Er búin að sjá þessa helgi í hyllingum, hlakkaði svoooo til að fá að sofa aðeins út. En nei!!! Á morgun er sem sagt æfingaleiku uppi í Kór. Mæting kl. 8:45 sem þýðir að ég þarf að vakna í síðasta lagi kl. 8. En það þýðir þó að ég fæ að sofa hálftíma lengur en í miðri viku! Ætla sko að vona að ég fái að sofa út á sunnudaginn. Sérstaklega þar sem það verður örugglega mikið að gera alveg fram að jólum og lítið upp að fólk hér á heiminu geti slappað af og haft það næs. Jæja ætla að sjá hvort krakkarnir séu ekki að sofna og svo ætla ég að hlamma mér fyrir framan sjónvarpið og horfa á amk einn þátt áður en ég fer að sofa.


Hálf crazy dagur...

Hann byrjaði nú ekki vel miðvikudagurinn.  Einhvern vegin tókst mér að slökkva á vekjaraklukkunni í stað þess að snooza hana og við vöknuðum því kl. 8:02 og Sigurður átti að vera mættur í skólann kl. 8:10.  Höfum aldrei verið svona fljót að öllu.  Hann hoppaði í fötinn og gúffaði í sig jógúrt á meðan ég klæddi hann í skóna og burstaði svo tennurnar og hjálpaði honum í útifötinn.  Þegar ég leit á klukkuna stuttu eftir að hann lagði af stað í skólann var hún 8:11, þannig að ekki  tók þetta nú langan tíma.  Þá tók nú ekki betra við, prinsessan hraut uppi í rúmi og ég með hárið út um allt og rétt á brókinni og sloppnum og átti að vera mætt í foreldraviðtal úti í leikskóla kl. 8:30.  Henti mér í gallann, setti upp andlitið, skvísunni skellt hálfsofandi í fötin og út í bíl.  Var mætt svona hér um bil á réttum tíma, fjúff! 

Foreldraviðtalið gékk mjög vel.  Allt gott um skvísuna að segja.  Hún er voða dugleg og stendur við vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, tekur þátt í öllu, er óhrædd, ófeimin og vinsæl af hinum krökkunum.  Eina sem eitthvað var hægt að segja um hana var að hún er greinilegur leiðtogi í sínum hóp og á það til að vilja stjórna þeim svolítið og það er verið að reyna vinna í því að virkja hinar stelpurnar í að vera sjálfstæðari.  Upp að vissu marki er ég eiginlega bara ánægð með þetta, þ.e. svo lengi sem hún er góð við stelpurnar.  Hún fullvissaði mig um að ef eitthvað kæmi upp á eða hún yrði enn stjórnsamari myndu þær láta mig vita.  Það hefur nefnilega alltaf háð mér að vera ekki nógu ánægð með sjálfa mig og átt erfitt með að standa á mínu og þar af leiðandi látið spila svolítið með mig.  Ég er því ánægð með að hún sé sjálfstæð og flott stelpa sem standi á sínu, gangi í hluti og hafi frumkvæði.  Það eru eiginleikar sem ég vona að hún missi ekki niður, heldur læri að nota þá rétt.  Það er held ég nefnilega ótrúlega mikils virði að trúa svona á sig.

Var svona frekar dugleg í vinnunni en þurfti að fara frekar snemma heim til að sækja Sigurð og fara með hann (og mig) til læknis.  Ég er laus en aumingja Sigurður er svo slæmur að það er alveg hræðilegt.  Talaði fullt við lækninn en hann vildi halda þessari meðferð eitthvað áfram áður en við prófum eitthvað annað (bara eitt annað sem kemur til greina og það er að nota eitthvað krabbameinslyf sem er sprautað á staðinn)  Þannig að enn og aftur var fryst og eitur borið á en að þessu sinni var það haft mjög stutt á.  En þetta var mjög erfiður tími.  Sigurður er mjög sterkur, lætur aldrei vita ef það er eitthvað að, en þarna bara grét hann og kvartaði og bað lækninn að hætta og ég þurfti alveg að berjast við það að fara ekki að gráta með honum.  Vona bara að hann verði ekki slæmur í þetta skiptið.

Eftir læknisheimsóknina fékk hann kleinuhring og svo fórum við í Toys'r us og keyptum jólagjafir fyrir Lúkas, Gabríelu, Belindu og hálfa afmælisgjöf fyrir Belindu.  Þannig að núna fara allar krakkagjafirnar að verða búnar (nema fyrir Sigurðu og Sonju Margréti).  Þó svo það sé enn slatti eftir að þá hef ég samt aldrei verið jafnsnemma í þessu og núna.  Ætla svo að reyna að ná að skrifa á jólakortin um helgina.

Sóttum svo Sonju Margréti og fórum heim, enda slatti sem ég átti eftir að gera fyrir saumó sem var um kvöldið.  Kláraði að taka aðeins til, ryksugaði og fór svo í það að útbúa eitthvað gúmmelaði fyrir skvísurnar.  Bara léttur matur fyrir krakkana, skyr og brauð.  Þau fóru síðan tímanlega í bólið svo ég gæti komið mér í gírinn áður en stelpurnar mættu.

Sem fyrr var frábært að sjá þær og kjafta fullt.  Vorum voða duglega og ég, Harpa og Addý föndruðum okkur aðventukransa.  Breytti aðeins til núna og er með kransinn svona gylltan og brúnan.  Er bara frekar ánægð með hann.  Útbjó líka lítinn krans framan á hurðina, en hann er nú aðeins einfaldari.  Ég, Erla og Addý sátum fram eftir öllu og kjöftuðum eftir að hinar voru farnar.  Ég fór ekki að sofa fyrr en rúmlega 2 eftir að hafa gengið aðeins frá og skellt mér í sturtu og var því nett þreytt þegar ég vaknaði í morgun.

Jæja, læt þetta duga í bili.  Einn dagur í einu er ágætt :)

Rósa

 


Kaldur þriðjudagsmorgun

Hann var hálfkaldur í morgun.

Kom Sigurði í skólann og svo kúrðum við mægður aðeins lengur, var alveg búin eitthvað og mér tókst ómögulega að mæta snemma í vinnuna í morgun. Ekki það að ég mætti alveg á réttum tíma, var bara einhvern vegin búin að bíta það í mig að ég ætlaði að vera dugleg að mæta fyrr en ég þyrfti núna fram að jólum, sérstaklega af því að ég get örugglega ekki unnið jafnmikið og venjulega á kvöldin.

En aftur að deginum í dag. Það var sem sagt kalt. Hálka úti og klaki á bílrúðum sem þurfti að skafa, burr. Svo er þessi helv... fjarstýring fyrir bílinn að gera mig geðveika. Fyrst var erfitt að opna með henni og ég kenndi ónýtu batteríi um. Það var skipt um það og það virkaði í 2-3 skipti, vííí ég ýkt glöð. En nei um leið og Óli er farinn út vill hún ekki heldur læsa núna. Þannig að það þarf að opna og loka með lyklinum í hvert skipti og það er bara vesen þegar maður er orðinn vanur hinu. Maður er vanur að kippa öllu úr bílnum, krakkarnir koma sér út sjálfir og þegar allt er komið út (og ég kannski næstum inn í hús) er læst. En ekki núna, arg...

Annars var þetta ágætis dagur. Hefði kannski viljað koma meiru í verk uppi á verkstæði, en ég gerði samt slatta og svo fór ég í það að fara yfir, velja og panta ermahnappa sem koma vonandi fyrir jólin því að þá vantar sko. Fór svo og sótti krakkana, skuttlaði Sonju Margréti í fimleika og á meðan hún var að hoppa og skoppa fórum við Sigurður Örn í Garðheima. Ég er með saumó hér heima á morgun og við ætlum að útbúa aðventukransa og mig vantaði greni og kannski smá skraut. Sigurði tókst auðvitað að sannfæra mig um að hann bráðvantaði nýja seríu í herbergið sitt og ég fór því út með aðeins meira en ég ætlaði mér. Sóttum svo Sonju Margréti og keyptum okkur fisk á leiðinni heim.

Heima beið mín fullt. Húsið var á hvolfi eftir að ég byrjaði að skreyta í gær og þar sem það er saumó á morgun þurfti nú alla vega að koma hlutunum á sinn stað! Ég var líka ógó dugleg og setti upp greni og seríu á svalirnar. Þannig að núna er bara að verða frekar jóló hjá okkur. Ekki það að ég á eftir að skreyta inni í herbergjunum hjá krökkunum setja upp seríur hjá þeim og svona. Þau bara ætluðu að vera búin að taka til í þeim og ég ætla ekki að setja þær upp fyrr en þau eru búin að því.

Núna er klukkan rúmlega 11, ég er orðin þvílíkt þreytt en þarf að klára nokkra hluti áður en ég fer í bólið. Það þarf að fara með nokkra kassa niður í kjallara og svo þarf að brjóta saman þvott. Þannig að ég ætla að drífa mig að því, enda þurfum við að fara snemma á fætur á morgun því ég á að mæta í foreldraviðtal úti í leikskóla strax í fyrramálið. Hlakka til að heyra hvað þau hafa að segja um litlu snúlluna.

Þangað til á morgun,
Rósa


Helgin...

Ótrúlegt en satt, ég er farin að blogga :)

Nú reyndar aðallega gert fyrir húsbóndann á heimilinu sem þeysist um háloftin og er alltof sjaldan heima. Maður verður nú að leyfa greyinu að fylgjast með því sem gerist hér heima.

Kallinn flaug sem sagt út í gærmorgun og eftir sitjum við hin. Gærdagurinn var reyndar alveg ágætur, rólegur og þægilegur. Krakkarnir skriðu seint framúr og fóru þá upp og fengu sér morgunmat á meðan ég gat lesið blöðin og slakað á uppi í rúmi sem var æðislegt. Svo var farið í smá tiltekt. Ætlaði reyndar að vera voða dugleg að skreyta en endaði á því að hreinsa út fullt af gömlum blöðum héðan og þaðan, láta staflann úr eldhúsinu hverfa, sem og að taka upp úr síðasta kassanum síðan við fluttum (nei við erum ekki flutt aftur, hann er frá því í júlí í FYRRA!) Þetta var svona draslkassi, fullur af dóti sem ég hef ekkert saknað í rúmt ár og fór því að mestu í tunnuna. Ótrúlega fljót að þessu þegar ég drullaði mér til þess. En sem sagt lítið skreytt. Náði þó að hengja upp tvo ljóskransa og þeir gera alveg ótrúlega mikið. Hlakka til að halda áfram að skreyta.

Krakkarnir voru bara aðallega að dandalast eitthvað saman, horfa á sjónvarpið og leika sér inni hjá sér. Egill Gauti kom líka aðeins í heimsókn og það var mikið stuð á þeim öllum saman og þau voru örugglega í rúmlega klst að leika sér í feluleik öll þrjú saman.

Fórum ekki í mat til tengdó í gær því við fórum til hennar á laugardaginn og svo finnst mér bara alger óþarfi að hún sé að elda ofan í mig og krakkana þegar hvorki Óli né einhver hinna systkinanna eru hérna. Ekki það er voða gaman að fara til þeirra, en kannski óþarfa vinna fyrir hana. En þau eiga nú eftir að sjást mikið í næsta mánuði, ég þarf örugglega á hjálp hennar að halda með krakkana þegar það fer að verða brjálað í vinnunni. En alla vega bara svona smá snarl hjá okkur, skyr og brauð og svo fengum við okkur reyndar heitt súkkulaði með rjóma og piparkökurnar sem við vorum að skreyta á laugardeginum öll fjölskyldan saman. Þá ræddum við líka öll saman, voru með svona fjölskyldufund. Þau ætla að vera voða dugleg að hjálpa mér í jólaundirbúningnum og brjálæðinu í vinnunni. Þau fóru svo í bólið og ég ætlaði að fara að baka smá...

En þá fór rafmagnið af og við enduðum uppi í sjónvarpsherbergi með fullt af kertum, rauð epli og spiluðum olsen, olsen. Frekar kósý :) En ég þurfti samt að klára að baka þegar rafmagnið komst loks á og krakkarnir voru komnir (aftur!) í bólið. Svo er þessi ofn alveg óendanlega leiðinlegur og helmingurinn af kökunum var ónýtur og marengsinn sem átti að vera í saumó er í skoðun :s

Ég fór því allt of seint að sofa og vaknaði þreytt eftir því. Þoli ekki að byrja vikuna svona. Sigurður mætti á réttum tíma í skólann og svo fór ég í að koma okkur mæðgum út. Það tók samt sinn tíma og ég var mætt kannski 9:45 í vinnuna, eftir að hafa komið henni í skólann og komið við á einu stað á leiðinni. Ætla mér að vera mætt fyrr á morgun (ekki það að ég var nú mætt fyrst!). Annars var þetta nú ekkert spes dagur, var í búðinni í allan dag því Valdís er úti í Köben og mamma gleymdi að tala við Steinku sys. Þannig að ekki var mikið framleitt í dag. Ætla að reyna fara snemma að sofa í kvöld og mæta hress og kát á morgun og smíða eitthvað geggjað, verð bara að fara að komast í svolítið vinnustuð.

Jæja núna tekur hin vinnan við. Skítugt heimilið bíður og ég verð að vera voða dugleg ef ég ætla að ná að halda saumó hér á miðvikudaginn, sérstaklega af því að ég verð mjög upptekin næstu daga. Þannig að ég hef nú ekki tíma til að hanga svona í tölvunni og kveð að sinni...

Rósa


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband