Kaldur þriðjudagsmorgun

Hann var hálfkaldur í morgun.

Kom Sigurði í skólann og svo kúrðum við mægður aðeins lengur, var alveg búin eitthvað og mér tókst ómögulega að mæta snemma í vinnuna í morgun. Ekki það að ég mætti alveg á réttum tíma, var bara einhvern vegin búin að bíta það í mig að ég ætlaði að vera dugleg að mæta fyrr en ég þyrfti núna fram að jólum, sérstaklega af því að ég get örugglega ekki unnið jafnmikið og venjulega á kvöldin.

En aftur að deginum í dag. Það var sem sagt kalt. Hálka úti og klaki á bílrúðum sem þurfti að skafa, burr. Svo er þessi helv... fjarstýring fyrir bílinn að gera mig geðveika. Fyrst var erfitt að opna með henni og ég kenndi ónýtu batteríi um. Það var skipt um það og það virkaði í 2-3 skipti, vííí ég ýkt glöð. En nei um leið og Óli er farinn út vill hún ekki heldur læsa núna. Þannig að það þarf að opna og loka með lyklinum í hvert skipti og það er bara vesen þegar maður er orðinn vanur hinu. Maður er vanur að kippa öllu úr bílnum, krakkarnir koma sér út sjálfir og þegar allt er komið út (og ég kannski næstum inn í hús) er læst. En ekki núna, arg...

Annars var þetta ágætis dagur. Hefði kannski viljað koma meiru í verk uppi á verkstæði, en ég gerði samt slatta og svo fór ég í það að fara yfir, velja og panta ermahnappa sem koma vonandi fyrir jólin því að þá vantar sko. Fór svo og sótti krakkana, skuttlaði Sonju Margréti í fimleika og á meðan hún var að hoppa og skoppa fórum við Sigurður Örn í Garðheima. Ég er með saumó hér heima á morgun og við ætlum að útbúa aðventukransa og mig vantaði greni og kannski smá skraut. Sigurði tókst auðvitað að sannfæra mig um að hann bráðvantaði nýja seríu í herbergið sitt og ég fór því út með aðeins meira en ég ætlaði mér. Sóttum svo Sonju Margréti og keyptum okkur fisk á leiðinni heim.

Heima beið mín fullt. Húsið var á hvolfi eftir að ég byrjaði að skreyta í gær og þar sem það er saumó á morgun þurfti nú alla vega að koma hlutunum á sinn stað! Ég var líka ógó dugleg og setti upp greni og seríu á svalirnar. Þannig að núna er bara að verða frekar jóló hjá okkur. Ekki það að ég á eftir að skreyta inni í herbergjunum hjá krökkunum setja upp seríur hjá þeim og svona. Þau bara ætluðu að vera búin að taka til í þeim og ég ætla ekki að setja þær upp fyrr en þau eru búin að því.

Núna er klukkan rúmlega 11, ég er orðin þvílíkt þreytt en þarf að klára nokkra hluti áður en ég fer í bólið. Það þarf að fara með nokkra kassa niður í kjallara og svo þarf að brjóta saman þvott. Þannig að ég ætla að drífa mig að því, enda þurfum við að fara snemma á fætur á morgun því ég á að mæta í foreldraviðtal úti í leikskóla strax í fyrramálið. Hlakka til að heyra hvað þau hafa að segja um litlu snúlluna.

Þangað til á morgun,
Rósa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband